135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunarinnar.

[13:39]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Ég held að við höfum rætt utan dagskrár af minna tilefni en ástandinu í hafinu og stöðu fiskstofna, einkanlega þorskstofnsins. Það er mjög ánægjulegt þegar sú gagnrýni er höfð uppi að það sem að sé á Íslandi sé að við veiðum ekki nóg vegna þess að það sé svo mikill fiskur í sjónum, í hafinu kringum landið. Það er vandamál sem fáar þjóðir geta talað um vegna þess að víða er það því miður þannig að fiskstofnunum hefur hrakað. Gagnrýnin sem hv. þingmaður hefur uppi er þá væntanlega sú að staða fiskstofnanna sé betri en vísindamenn telja sem væntanlega bendir til þess að hann telur að þannig hafi verið staðið að málum við okkar nýtingarstefnu á síðustu árum að hún hafi borið árangur. Þetta er út af fyrir sig heilmikið sjónarmið sérstaklega komandi frá jafnreyndum veiðimanni og hv. þm. Grétari Mar Jónssyni og er ástæða til þess að leggja við hlustirnar að þessu leytinu frá honum.

Það stendur þannig á núna að það hafa staðið yfir rannsóknir í þessu umrædda og umtalaða togararalli og þeim er nýlega lokið og úrvinnsla á þeim gögnum stendur yfir. Netarallið er síðan að hefjast og hafið. Auðvitað eru þessar rannsóknir ásamt fleiri rannsóknum, fleiru sem menn styðjast við, síðan lagðar til grundvallar þegar Hafrannsóknastofnun mun núna í byrjun júní, hygg ég, kynna ástandsskýrslu sína þar sem fram munu koma tillögur hennar um eðlilega veiði eða hæfilega veiði á næsta fiskveiðiári. Að mínu mati er skynsamlegast að bíða með allar ákvarðanir þangað til þær upplýsingar liggja fyrir. Við verðum að skoða þetta heildstætt og taka tillit til sem flestra sjónarmiða í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Við tókum þá ákvörðun þegar ákveðið var að skera niður þorskstofninn að stórauka hafrannsóknir hér við land og sérstaklega beina sjónum okkar að þorskrannsóknunum. Ég fullyrði að ekki hefur verið lögð jafnmikil áhersla á þorskrannsóknir í aðra tíð en núna.

Við tókum togararallið til gagngerrar endurskoðunar. Við fengum til þess skipstjóra og útgerðarmenn stærri og minni skipa sem lögðu til ýmiss konar breytingar á togararallinu sjálfu. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að núna var farið í að fjölga mjög togstöðvunum sem togað var á í þessu ralli. Þeim var fjölgað um 51 í þessum rannsóknum.

Mjög margt annað var líka skoðað í þessum efnum. Hv. þingmaður talaði meðal annars um tímasetninguna. Það er eitt af því sem líka var verið að skoða, þ.e. hvort þessi tímasetning væri heppileg. Hún var á sínum tíma ákveðin fyrri hluta marsmánaðar. Núna er verið að athuga það í þessum hópi hvort ástæða væri til þess að gera breytingar á tímasetningunni og sú vinna er í gangi og ekki komin niðurstaða í það.

Það var líka gagnrýnt varðandi togararallið að dreifing togstöðvanna væri ekki eðlileg, það vantaði að skoða veiðisvæðin í útköntum út af Vestfjörðum og norðaustan við landið og að ástæða væri til þess bæta við stöðvum og hugsanlega gera tilraunir með færanlegar skipstjórastöður. Við öllu þessu hefur verið brugðist. Fyrir Norðausturlandi voru teknar tíu aukastöðvar á djúpslóð, út af Vestfjörðum fimmtán aukastöðvar á djúpslóð og á grunnslóð í Faxaflóa, á Breiðafirði og á Vestfjörðum voru teknar 26 aukastöðvar. Þetta er allt saman liður í því sama. Til viðbótar þessu höfum við varið stórauknu fjármagni ekki bara til Hafrannsóknastofnunar heldur líka til sjálfstæðra rannsóknarstofnana, vísindastofnana, meðal annars úti á landsbyggðinni til þess að efla þorskrannsóknirnar og fá fleiri og fjölbreyttari sjónarmið fram til þess að geta fengið sem besta niðurstöðu. Í þessu sambandi vil ég líka vekja athygli á því að ég tók þá ákvörðun að efla umtalsvert samkeppnisdeild verkefnasjóðs sem starfar undir forustu doktors Jakobs Kristjánssonar sem fékk tvöfalt meira fjármagn til ráðstöfunar og sú aukning fór öll til þorskrannsóknaverkefna.

Hv. þingmaður var síðan með nokkrar spurningar, meðal annars um lokanir veiðisvæða. Það er alveg rétt að það hefur verið talsvert mikið um lokanir á veiðisvæðum vegna smáþorsks á árinu 2007. Ég hygg hins vegar að það sé ekki mjög góður mælikvarði á stærð eða afrakstursgetu þorskstofnsins. Ef það væri þannig mundum við væntanlega líta þannig á að þegar lítið væri um skyndilokanir þá væri það til vísbendingar um að þorskstofninn okkar væri í mjög slöku ástandi. Mig rekur nú ekki minni til þess að menn hafi talað þannig, hvorki héðan úr ræðustólnum né nokkurs staðar annars staðar. Auðvitað er margt hægt að segja um þetta. Það getur verið sú skýring þarna á að við séum með lítinn þorskstofn og þess vegna sé ásóknin í smærri fiskinn þetta meiri.

Hv. þingmaður spurði enn fremur um þorskaflann í rækjuralli. Þetta er ekki rétt. Það er hins vegar þannig að vísitala þorsks í rækjuralli í fyrra var 50% lægri en áður. En svo er það líka svo að rækjurallið gefur auðvitað ekki góða mynd af afrakstursgetu þorskstofnsins. Rækjurallið fer fram á mjög afmarkaðri slóð og við fáum enga heildarmynd út úr því. Ég hygg að það sé eðlilegast hjá okkur að reyna að átta okkur á heildarmyndinni eins og við erum að reyna að gera áður en við tökum ákvarðanir, áður en við (Forseti hringir.) kveðum upp dóma, áður en við sláum neinu föstu um stærð þorskstofnsins á þessari stundu.