136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[14:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir málefnaleg skoðanaskipti um þetta mál, bæði af hálfu fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Árna Mathiesens og eins þeirra sem ég ræddi hér við í andsvari áðan. Það er að sjálfsögðu ýmislegt sem er eðlilegt að menn vilji skoða í kringum þetta mál og ég geri ekkert lítið úr því. Þetta er nokkuð sérstök aðgerð og hún er auðvitað sértæk og tekur mið af mjög sérstökum aðstæðum.

Það var rækilega skoðað hvort halda ætti sig við kannski fyrri eða upprunalegar hugmyndir sem fram komu og voru fólgnar í því að binda ætti þetta við að færa fjármuni úr séreignarsparnaði yfir í að borga niður veðlán eða lán. Vandinn er þá sá að við vitum að það er fullt af fólki í alls konar vandræðum sem ekki er fyrst og fremst í þeim vegna þess að það sé í vanskilum eða skuldi mikið, t.d. fólk sem ekki á húsnæði, og er ekki með veðlán af þeim sökum, en hefur misst vinnuna og er bara einfaldlega í hengjandi vandræðum við að brauðfæða sig og sína og komast af í vetur. Ef menn hefðu bundið ráðstöfunina algerlega við það að greiða niður t.d. fasteignaveðlán eða jafnvel þó að það hefðu verið hvers kyns veðlán var slíkur hópur skilinn algerlega út undan. Þá hefðu komið upp önnur landamæri sem gat verið félagslega mjög erfitt að verja og útskýra, hafandi aftur í huga að þetta er þrátt fyrir allt eign viðkomandi fólks. Með sama hætti og það tók sjálft ákvörðun um að greiða þetta inn finnst mér að ef opnað er fyrir þetta eigi það að vera í grunninn ákvörðun viðkomandi einstaklings hvort hann vill, við þær aðstæður sem hann glímir við, grípa til þessa samkvæmt þessum reglum og með þessum takmörkunum til að reyna að bjarga sér. Það er verið að reyna að virða þær grundvallarreglur með þessari aðferð. Ef farið yrði út í stórtækari hluti hlyti að sjálfsögðu að koma til skoðunar að binda það með einhverjum hætti við fasteignaveðlán eða veðlán.