151. löggjafarþing — 84. fundur,  22. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[04:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er mjög skýrt ákall um að við samþykkjum lög sem herða reglurnar á landamærunum til að við getum aukið frelsið hér innan lands. Það er hátt og það er skýrt. Það ætlar enginn hér inni að sitja hjá eða jafnvel að greiða atkvæði gegn þessu máli sér til vinsælda. Ég ætla að sitja hjá við þetta mál. Ég býst fastlega við því að þurfa að rökræða við ansi mikið af stuðningsfólki okkar í kjölfarið. Ég ætla að gera það því að ég hef svarið eið, virðulegur forseti, að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Ég ætla að standa við þann eið. Það er þess vegna sem ég sit hjá, ekki af neins konar tækifærismennsku, þvert á móti.