Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

framfylgd ályktana Vestnorræna ráðsins árið 2021.

643. mál
[13:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ég er svo sem ekki með efnislega spurningu um þessa ályktun. Ég ákvað bara að nota tækifærið vegna þess að mér finnst svolítið skemmtilegt en líka að sama skapi svolítið sérstakt hvernig farið er með Vestnorræna ráðið, að ég tel, ólíkt öllum öðrum alþjóðanefndum sem Alþingi tekur þátt í. Nú hef ég hvorki setið í Vestnorræna ráðinu né Norðurlandaráði. Ég veit ekki hvort það sama eigi við um Norðurlandaráð. Ég held ekki. En ég held að ég fari rétt með að tillögur sem eru samþykktar þar komi síðan hingað inn á þing í formi þingsályktunartillögu sem síðan er fylgt eftir. En mér finnst þetta einmitt gott fyrirkomulag. Ég myndi t.d. mjög gjarnan vilja sjá það í mínu eigin alþjóðastarfi, sem er Evrópuráðið, sem kemur mjög oft með prýðisgóðar skýrslur með ítarlegum og vel undirbyggðum tilmælum til aðildarríkja sinna um hvað þau geti gert til að styrkja lýðræðið, réttarríkið og mannréttindi en fá litla athygli hér sem enga og er oftast ekki framfylgt, bara í ljósi þess að það er varla við tökum eftir því að það komi þessar fínu ábendingar frá Evrópuráðinu sem við þó hreykjum okkur gjarnan af samstarfi við.

Ég vil einfaldlega spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki tilefni til að skoða að útvíkka þessa framkvæmd, hvort það sé eitthvað sérstakt við samninginn, stofnsamninginn eða aðildarsamning okkar við Vestnorræna ráðið sem veldur því að þetta fyrirkomulag er svona eða hvort hún viti hvers vegna Vestnorræna ráðið er eitt um þessa framkvæmd og hvort henni finnist að mögulega ætti að útvíkka hana.