Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í sjónvarpsviðtali í gær var haft eftir hæstv. heilbrigðisráðherra að þau hefðu bætt 2 milljörðum aukalega inn í heilsugæsluna í fjárlagavinnunni í desember. Þrátt fyrir hið aukna framlag er veruleikinn sá að það vantar tugi lækna og hjúkrunarfræðinga til starfa á heilsugæsluna og fólk bíður svo vikum skiptir eftir að fá nauðsynlega þjónustu. Nú um helgina samþykkti landsfundur VG síðan að heilbrigðisþjónusta skuli vera starfrækt á opinberum grunni og að einkarekstur í ágóðaskyni eigi ekki heima í heilbrigðisþjónustu. Maður veltir fyrir sér hvort þessi ályktun feli það í sér að fækka eigi valkostum í heilbrigðisþjónustu. Nú hafa sjálfstætt starfandi heilsugæslur verið til staðar á höfuðborgarsvæðinu um nokkurra ára skeið og mælast hæstar í ánægjukönnunum. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi þann 1. júní 2021 áskorun um að fyrirliggjandi húsnæði við Aðaltorg yrði nýtt undir heilsugæslu þar sem fyrir lá að ný opinber heilsugæsla yrði í fyrsta lagi að veruleika á árinu 2026. Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra, hefur nú staðfest nýgerðan samning Sjúkratrygginga Íslands og heilsugæslunnar Höfða ehf. um rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar við Aðaltorg í Reykjanesbæ í samræmi við bókun bæjarstjórnar á sínum tíma. Þetta verður því fyrsta sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðin utan höfuðborgarsvæðisins og er áætlað að hún taki til starfa 1. september næstkomandi. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að hrósa hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að sýna þessu rekstrarformi velvilja og leyfa mér að fullyrða að þetta muni breyta allri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Um leið velti ég fyrir mér hvort þetta hefði getað gerst á vakt Vinstri grænna í heilbrigðisráðuneytinu.