Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

NATO-þingið 2022.

648. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Frú forseti. Á þskj. 1018 í máli 648 liggur fyrir ársskýrsla NATO-þingsins og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli á liðnu ári. Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2022 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipanar Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1955 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og starfssvið þess verið víkkað. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Aðild að NATO-þinginu áttu í lok árs 2022 30 löggjafarþing NATO-ríkjanna en aukaaðild að sambandinu 13 svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið NATO-þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og svo ársfundar að hausti.

Sá sem hér stendur gegndi á árinu starfi skýrsluhöfundar undirnefndar vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins og var kjörinn aðalskýrsluhöfundur nefndarinnar á ársfundi þingsins í nóvember í Madríd. Þá var Andrés Ingi Jónsson kjörinn í þingmannaráð Úkraínu og NATO-þingsins á ársfundi þingsins.

Frú forseti. Á vettvangi NATO-þingsins árið 2022 var innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli og lýsti það yfir algerri samstöðu með lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn, þjóðþingi og íbúum Úkraínu. Með yfirgangi sínum gegn Úkraínu væru Rússar að leitast við að brjóta niður lýðræðið í landinu, hræða önnur fullvalda lýðræðisríki og grafa undan grunngildum NATO og lýðræðisríkja.

Rúslan Stefantsjúk, forseti úkraínska þingsins, ávarpaði stjórnarnefndarfund NATO-þingsins í apríl með fjarfundarbúnaði og kallaði eftir stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Gerald E. Connolly, forseti NATO-þingsins, svaraði ávarpi hans með þeim orðum að þingið fordæmdi harðlega árásir Rússa í Úkraínu og að það væri staðráðið í því að tryggja að refsað yrði fyrir þá glæpi sem Rússar og hermenn þeirra fremdu. NATO-þingið myndi halda áfram að byggja upp sterkt alþjóðlegt bandalag til að styðja við Úkraínu. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að Rússar vissu að alþjóðasamfélagið myndi aldrei viðurkenna ólöglegt hernám og innlimun Krímskaga, „sjálfstæði“ hinna svokölluðu alþýðulýðvelda Lúhansk og Donetsk, hernám Rússa á úkraínsku landsvæði eða aðrar tilraunir Rússa til að koma á ólögmætri stjórnskipan í Úkraínu. Þá yrði áfram þrýst á Rússa að taka þátt í uppbyggilegum viðræðum við Úkraínu til að ná áþreifanlegum árangri. Jafnframt var tekin ákvörðun um að NATO-þingið myndi aðstoða Úkraínu í auknum mæli, m.a. fyrir tilstilli sjóðs NATO-þingsins, til að styðja við lýðræði í landinu.

Á vorfundum NATO-þingsins í Vilníus í maí var stríðið í Úkraínu helsta dagskrármálið. Fyrirhugað hafði verið að halda fundinn í Kænugarði en hann var fluttur til Litháens eftir að Rússar hófu árásir á Úkraínu 24. febrúar. Í yfirlýsingu fundarins eru brot rússneska hersins gegn mannréttindum og alþjóðlegum mannúðarlögum fordæmd harðlega, þar á meðal árásir á almenna borgara og innviði. Skorað er á stjórnvöld í aðildarríkjunum að styðja við Alþjóðlega sakamáladómstólinn og aðrar alþjóðastofnanir sem rannsaka stríðsglæpi svo að réttað verði yfir gerendum. Þá er lýst yfir áhyggjum af aukinni hættu sem viðkvæmustu hópar samfélagsins standa frammi fyrir, sérstaklega konur og börn, þar sem hætta á kynferðisofbeldi og mansali eykst.

Á ársfundi NATO-þingsins í Madríd var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og lýsti þingið yfir staðföstum stuðningi við lýðræði, sjálfstæði og fullveldi Úkraínu og fordæmdi tilefnislausa og ólögmæta innrás Rússa. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn með fjarfundarbúnaði frá Kænugarði og kallaði eftir frekari stuðningi og aðstoð aðildarríkja NATO. Hann sagðist viss um að Úkraínumenn gætu varið land sitt og endurreist landamærin með utanaðkomandi aðstoð og mátt lýðræðisins að vopni. Í framhaldinu samþykkti ársfundurinn ályktun um það hvernig efla mætti stuðning við Úkraínu og styrkja aðlögun landsins að stofnunum Evró-Atlantshafssvæðisins.

Frú forseti. Öryggisáskoranir á norðurslóðum fengu aukna athygli á árinu og afgreiddi vísinda- og tækninefnd NATO-þingsins skýrslu um málið. Þar kemur fram að NATO leggi aukna áherslu á norðurslóðir og hafi aukið sýnileika sinn og fjölgað heræfingum á svæðinu. Íslandsdeild tók þátt í umræðum um málið og lagði áherslu á aukið mikilvægi norðurslóða, m.a. í ljósi bráðnunar jökla, mikils áhuga Kína og aukinnar hernaðarviðveru Rússa. Einnig væri brýnt að gera ráð fyrir því að Rússar bregðist við atburðum líðandi stundar á norðurslóðum en með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO yrðu sjö af átta norðurskautsríkjum aðildarríki.

Einnig var mikið rætt um inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið og voru fulltrúar Tyrklands og Ungverjalands hvattir til að fullgilda aðildarumsókn þeirra án tafar í þjóðþingum sínum. Þá var rætt um uppfærða stefnu NATO sem samþykkt var í júní á leiðtogafundi bandalagsins þar sem rík áhersla er lögð á grunngildi þess; lýðræði og frelsi. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum NATO-þingsins árið 2022 má nefna viðnám og fælingarmátt NATO, netöryggi, spillingu og efnahagslegar og pólitískar áskoranir í Hvíta-Rússlandi. Þá gaf NATO-þingið út sextán málefnaskýrslur á árinu og sex ályktanir sem nálgast má á vefsvæði NATO-þingsins.

Eins og áður sagði er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar.

Ég vil að lokum þakka Íslandsdeildarmönnum, þeim Andrési Inga Jónssyni varaformanni og Stefáni Vagni Stefánssyni, gott samstarf á þessum mikilvæga vettvangi og læt að svo mæltu lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2022.

Hér er hinni eiginlegu umræðu lokið um sjálfa skýrsluna en mig langar í seinni hluta ræðunnar að fara aðeins í gegnum grunnstefnu NATO sem var samþykkt í Madríd 29. apríl á síðasta ári og íslenska þýðingu á þeirri grunnstefnu sem raunverulega hefur ekki opinberlega — hún hefur verið þýdd af Varðbergi, í góðri þýðingu, og ég ætla aðeins að rúlla í gegnum það. Hér er um algjört lykilplagg að ræða og mig langaði að fara aðeins í gegnum aðfaraorð að þessari nýju grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins sem var samþykkt í lok júní í fyrra. Hafa þarf í huga að hér er væntanlega um að ræða mikilvægustu grunnstefnu sem skrifuð hefur verið innan NATO frá því að stofnsáttmáli Atlantshafsbandalagsins var undirritaður og samþykktur 4. apríl 1949, en eins og við vitum var Ísland ein af 12 stofnþjóðum bandalagsins. Þess vegna vil ég lesa upp þessa þýðingu og hef þá lesturinn, frú forseti:

„Við, þjóðhöfðingjar og stjórnarleiðtogar Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO), komum nú saman í Madríd á viðsjárverðum tímum fyrir öryggi okkar, heimsfrið og stöðugleika. Í dag staðfestum við nýja grunnstefnu til að tryggja að bandalag okkar sé í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.

NATO hefur tryggt frelsi og öryggi bandalagsríkjanna í meira en sjötíu ár. Árangur okkar helgast af framlagi og fórnum þeirra kvenna og karla sem gegna herþjónustu á okkar vegum. Við stöndum í þakkarskuld við þau og fjölskyldur þeirra.

Við erum staðföst í ásetningi okkar um að vernda milljarð borgara landa okkar, verja yfirráðasvæði okkar og standa vörð um frelsi okkar og lýðræði. Við munum efla einingu, samheldni og samstöðu okkar og treysta þar á áralöng tengsl þjóða okkar yfir Atlantshafið og styrk sameiginlegra lýðræðislegra gilda okkar. Við ítrekum óhagganlega skuldbindingu okkar við Norður-Atlantshafssáttmálann og til að verja hvert annað gagnvart allri ógn, sama hvaðan hún kemur.

Við munum halda áfram að vinna að sanngjörnum og varanlegum friði fyrir alla og standa vörð um lög og reglur alþjóðasamskipta. Við munum viðhalda hnattrænni sýn og vinna náið með samstarfsaðilum okkar, ríkjum og alþjóðastofnunum, svo sem Evrópusambandinu og Sameinuðu þjóðunum, til að stuðla að heimsfriði og öryggi.

Ástand heimsmála einkennist af ágreiningi og ófyrirsjáanleika. Árásarstríð Rússneska sambandsríkisins gegn Úkraínu hefur spillt friði og gjörbreytt öryggisumhverfi okkar. Grimmileg og ólögleg innrás þess, ítrekuð brot á alþjóðlegum mannúðarlögum og svívirðilegar árásir og óhæfuverk hafa valdið ólýsanlegri þjáningu og eyðileggingu. Sterk og sjálfstæð Úkraína er nauðsynleg fyrir stöðugleika á Evró-Atlantshafssvæðinu. Framkoma stjórnvalda í Moskvu endurspeglar mynstur herskárra aðgerða Rússa gegn nágrönnum sínum og samfélagi ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Við stöndum einnig frammi fyrir viðvarandi ógn af hryðjuverkum í fjölmörgum birtingarmyndum þeirra. Almennur óstöðugleiki, vaxandi hernaðarleg samkeppni og sókn einræðisafla ögra hagsmunum og gildum bandalagsins.

Ný grunnstefna okkar áréttar að lykilhlutverk NATO er að tryggja sameiginlegar varnir okkar hvert sem litið er. Þar eru skilgreind þrjú meginverkefni bandalagsins: Fæling og varnir; forvarnir og stjórn á hættutímum; samstarf um öryggi. Við leggjum áherslu á nauðsyn þess að efla verulega fælingarmátt okkar og varnir sem hornstein skuldbindingar okkar um gagnkvæmar varnir sem felst í 5 gr. Atlantshafssáttmálans.

Grundvallartilgangur kjarnorkumáttar NATO er að varðveita frið, útiloka þvinganir og aftra árásum. Svo lengi sem kjarnavopn fyrirfinnast verður NATO kjarnorkubandalag. Markmið NATO er öruggari veröld fyrir alla; við leitumst við að skapa öryggisumhverfi fyrir heim án kjarnavopna.

Í grunnstefnunni er lögð áhersla á að viðnámsþróttur einstakra bandalagsríkja og bandalagsins í heild er nauðsynleg forsenda við framkvæmd allra meginverkefna okkar og styður við viðleitni okkar til að verja bandalagsríkin, samfélög okkar og sameiginleg gildi. Þar er einnig lögð áhersla á þverlægt mikilvægi þess að fjárfest sé í tæknilegri nýsköpun og tekið tillit til loftslagsbreytinga, öryggis einstaklinga og áætlunarinnar um konur, frið og öryggi við framkvæmd allra meginverkefna okkar.

Sýn okkar er skýr: Við viljum lifa í heimi þar sem fullveldisréttur, landamærahelgi, mannréttindi og alþjóðalög eru virt og þar sem hvert ríki getur valið sína eigin leið, frjálst undan oki árásarógnar, þvingunar eða undirróðursstarfsemi. Við vinnum með öllum sem deila þessum markmiðum. Við stöndum saman sem bandamenn til að verja frelsi okkar og leggja okkar af mörkum til friðsælli heims.“

Ég vildi bara rétt hafa þetta með í þessari umræðu, hér er grundvallarplagg síðasta árs innan NATO og mikillar umræðu innan NATO-þingsins og raunverulega kemur þessi íslenska þýðing ekki fram neins staðar í opinberum skjölum á Íslandi þannig að ég reikna með að nú sé hún þá komin í þingskjöl Alþingis, það sem þessi grunnstefna sem var samþykkt í júnílok á síðasta ári gekk út á.

Ég hef lokið máli mínu, forseti.