136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:34]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú alltaf skemmtilegt þegar tveir Hafnfirðingar mætast í andsvörum og misskilja kannski hvor annan. Það sem ég var að leiða fram má kannski segja að hafi í raun og veru verið hið augljósa, þ.e. að umræddar starfsreglur, sem væru nú til staðar, bankastjórnarsamþykktin nr. 1111, yrði endurrýnd og endurskoðuð af nýrri peningastefnunefnd en hins vegar yrði grunnstofninn í umræddri bankastjórnarsamþykkt sem leiðir af sér þær ákvarðanir sem birtust frá 11. september þar til í lok október, eins og ég fór yfir, hin eiginlega beinagrind í bankastjórnarsamþykktinni yrði væntanlega til staðar.

En það sem ég var hins vegar að kalla eftir var einfaldlega það að þegar hin nýja peningastefnunefnd mundi endurrýna starfsreglurnar, eins og henni ber væntanlega að gera þegar lögin hafa tekið gildi, þá þurfi ákvörðun á hverjum tíma að fylla út í ákveðinn ramma. Mér finnst eins og það sé verið að draga það fram í lögunum núna og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fór vel yfir það, að birting ákvarðana sé mjög skýr og greinargóð.

Ég og hv. þm. Árni M. Mathiesen þekkjum þetta, við höfum farið yfir þessi mál í góðu samstarfi. Til að mynda þegar menn vinna saman að fjárlagagerðinni eins og við gerðum jafnan í góðu samstarfi þá er kallað alltaf eftir því hverjar eru forsendur, t.d. við framlagningu fjárlagafrumvarpsins sem hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur tekið að sér á umliðnum árum fylgir mjög greinargott leiðarljós í formi rits sem mig minnir að heiti (Forseti hringir.) Efnahagshorfur og staða.