Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er sérstaklega ánægð með það að meiri hlutinn skuli taka undir eina af breytingartillögum minni hlutans sem er um að mæðra- og feðralaun verði ekki til þess að lífeyrir skerðist. Það er ekki oft, herra forseti, sem meiri hlutinn samþykkir breytingartillögu frá minni hlutanum þannig að mér finnst þetta mjög ánægjulegt og ég vona að þetta sé fyrirboði um betri tíma í þessum efnum.

Þetta var þó ekki eina breytingartillagan sem við í minni hlutanum lögðum fram. Ein af tillögunum okkar var að það kæmi skýrt fram að ef ákvæði um gagnkvæma milliríkjasamninga væri beitt þá ætti það aldrei að leiða til lakari réttar en annars nyti við samkvæmt lögum. Það er sem sagt heimilt að víkja frá þessum lögum og taka tillit til milliríkjasamninganna. Jafnvel þótt það hafi komið fram í umræðum í nefndinni, og að einhverju leyti í nefndarálitinu, að þessi ákvæði eigi að vera ívilnandi þá er þetta samt sem áður skilið eftir til túlkunar fyrir Tryggingastofnun um þetta mál. Okkur fannst betra, fyrst að það væri í rauninni vilji meiri hlutans að niðurstaðan yrði sú að staðan yrði aldrei lakari en ef einungis væri farið eftir lögunum, að það kæmi fram í greininni. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvers vegna var meiri hlutinn ekki tilbúinn til að samþykkja þessa litlu breytingu?