Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú bara að byrja á því að taka heils hugar undir með hv. þingmanni og þakka henni fyrir síðara andsvar. Nú er það svo að bara hvern sem við myndum spyrja, þá þætti okkur óeðlilegt að fermingarpeningar barns kæmu til skerðingar á réttindum foreldris. Það er auðvitað mjög óeðlilegt og um það erum við öll sammála.

Það er tvennt sem ég vil segja: Annars vegar varðandi mikilvægi þessarar heildarendurskoðunar, þó að við séum hér, bæði fyrir jól og aftur núna og svo áfram, að gera breytingar á lagaverkinu, og er það mjög vel að það sé komið þetta langt, þá eru auðvitað margir hnútar eftir í kerfinu sem við verðum að vinna á. Ég vona svo sannarlega að velferðarnefnd beri gæfu til að vinna áfram þessi mikilvægu mál hratt og vel.

En varðandi þessar fjármagnstekjur og bara tekjur barna almennt, og það á reyndar líka við um tekjur maka, að það verður auðvitað að horfa á heildarmyndina og þarna yrðu að koma til breytingar á löggjöf um skattkerfið. Til þess held ég að sé bara full ástæða. Ég held það sé full ástæða til að skoða það en það verður ekki gert með breytingu á þessum lögum eingöngu. En ég vísa aftur til heildarendurskoðunar og er sannfærð um að ég og hv. þingmaður eigum eftir að vera samstiga í því að koma þessum góðu breytingum áfram því að ég er sammála því að það er fullkomlega galið að tekjur eða fjármagnstekjur barns komi til skerðingar á greiðslum til foreldra.