154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er illa hægt að reifa þetta mikilvæga umfjöllunarefni á aðeins tveimur mínútum. Mig langar samt að benda á nokkur atriði af því að ég held, eins og held ég flestir í þessum sal, að rafeldsneyti, framleiðsla þess og notkun verði hluti af framtíðarlausn vegna orkuskiptanna. Spurningin er: Hvar verður það framleitt, hvernig og í hvað fer það? Framleiðsla rafeldsneytis er orkufrekur iðnaður og við þurfum að meðhöndla umfjöllun um það með það alltaf í bakhöfðinu. Þar er stærðarhagkvæmni lykilatriði. Við þurfum að skoða hvort framleiðsla rafeldsneytis á Íslandi nái stærðarhagkvæmni. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að verði rafeldsneyti framleitt á Íslandi þá held ég að sé mjög mikilvægt að það sé nýtt hér á landi. Ég set spurningarmerki við það sem ég hef lesið um framleiðslu þess, að það eigi að nýtast sem útflutningsgrein vegna umframgetunnar í kerfinu. Við erum nú þegar, eins og við öll vitum, með kerfi sem annar ekki flutningi þeirrar getu sem í því er. Markaðir eru óþroskaðir í þessu máli af því að markaðirnir eru ekki alveg búnir að velja hvar þeir ætla að fjárfesta. Það þarf svolítið að hafa það í huga þegar við mótum stefnu og setjum niður okkar áætlun um þessi orkuskipti að flestar tegundir rafeldsneytisframleiðslu eru á óþroskuðum mörkuðum. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hér komi fram, eins og kom fram í umsögn frá HS Orku vegna þingsályktunartillögu sem ég trúi að hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson hafi lagt fram, ábending til stjórnvalda um að það sé ekki mögulegt að fara í þessa uppbyggingu án ríkisstuðnings vegna þess hvar tæknin er stödd og hvar markaðirnir eru staddir. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum það samtal líka hér í þessum sal.