154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

brottfall laga um orlof húsmæðra.

94. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um orlof húsmæðra. Þetta mál hefur verið flutt af mér og öðrum hv. þingmönnum ansi oft áður. Í grunninn snýst þetta mál svolítið um að færa okkur til nútímans. Það hefur margt breyst frá því að þessi lög voru sett og var vissulega mikil þörf fyrir þau á sínum tíma þegar tíðarandinn og staðan í þjóðfélaginu og í hinni ýmsu löggjöf var önnur. En sem betur fer eru þessi lög orðin óþörf, alla vega lagaskyldan um orlof húsmæðra. Það sem hefur gert það að verkum er góður árangur okkar, þó að honum sé ekki að fullu náð, í jafnrétti kynjanna og því að bæta stöðu kvenna og húsmæðra hér á landi. Ég vil taka það fram strax í upphafi að þó að þessi lagaskylda falli niður er ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarfélög haldi áfram að styðja við ákveðna hópa. Sveitarfélögin fara með félagsþjónustu í landinu og annað og ef ákveðnir hópar njóta ekki orlofsréttinda vegna stöðu á vinnumarkaði eða annarra ástæðna þá er áfram full heimild og kerfi til þess að grípa slíka hópa.

Ég vil líka geta þess að það er svolítið langt síðan þetta mál var lagt fyrir þingið þó að ég sé fyrst að flytja það í dag og því þarf að athuga gildistímann í hv. nefnd, hvenær það taki gildi klári hv. nefnd málið. Það stendur núna að lögin öðlist þegar gildi en það verði svigrúm út árið 2023 eða til 1. janúar 2024 til þess að fara í fyrirætlaðar ferðir. Það þarf að huga að því að þær ferðir sem hafa verið planaðar og undirbúnar á þessu ári nái fram að ganga.

Eins og ég kom inn á gerðu lögin sem hér eru undir ráð fyrir því að ríkissjóður og sveitarfélög veittu fé til orlofsnefnda sem skipulögðu orlof húsmæðra. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og margt áunnist í jafnréttisbaráttu. Barnauppeldi er nú sameiginlega á ábyrgð beggja foreldra, konur eru virkari þátttakendur á vinnumarkaði en áður var og mynda meiri hluta þeirra nemenda sem stunda nám við háskóla landsins. Á þeim heimilum þar sem einungis annað foreldri vinnur utan heimilis eru mun meiri líkur en áður var á því að feðurnir kjósi að sinna börnum og búi.

Lengi hefur verið til umræðu að leggja niður orlof húsmæðra. Er m.a. talið að um tímaskekkju sé að ræða enda hafa lögin verið umdeild vegna jafnréttissjónarmiða. Árið 1999 taldi Dröfn Farestveit, formaður orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík, að að því myndi koma að orlofið yrði lagt af og sagði:

„Það er enn þá full þörf á orlofinu. Ég gæti ímyndað mér að innan tíu ára yrði tímabært að breyta þessu vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna.“

Þetta sagði hún fyrir að verða 25 árum síðan. Ég held að við getum tekið undir með Dröfn Farestveit að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst til betri vegar. Við höfum náð gríðarlega góðum árangri og á síðustu 24 árum hafa miklar breytingar orðið í átt til jafnréttis og jafnræðis og mikilvægt að haldið sé áfram að skapa samfélag og lagaumhverfi sem hefur í hávegum jafnan rétt og stöðu karla, kvenna og annarra kynja, hvort sem það er á vinnumarkaði eða utan hans.

Í þessu sjónarmiði langar mig líka að benda á að við erum komin með lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þar er talað um jafnrétti og því má velta því upp hvort þessi lög standist jafnrétti og stjórnskipan landsins eins og þau standa í lagasafninu í dag.

Alltaf þegar við höfum flutt þetta mál hafa flest sveitarfélög í landinu tekið undir með okkur þar sem við erum að tala um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga. Nú bera þau meiri fjárhagslega ábyrgð á þessu og fara með félagsþjónustuna að mestu og þessa málaflokka. Því ætti það algerlega að vera sveitarfélaganna að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort þau verji fjármunum í orlof húsmæðra eða mæti þessum hópi á annan hátt með félagslegum stuðningi.

Þetta er svona það helsta sem ég ætlaði að fara yfir í stuttu máli. Ég vona að þetta mál fari að ná framgöngu hér. Þetta er hluti af því að að fagna, myndi ég segja, betri stöðu í jafnréttismálum kynjanna, virða sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaganna, koma til móts við þá stjórnskipun sem við höfum um jafnræði og sýna það í verki að við séum að ná árangri í jafnréttismálum.