151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

frétt RÚV um Samherja.

[13:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina. Ég er honum hjartanlega sammála um mikilvægi þess að fjölmiðlar séu frjálsir og geti fjallað um málefni líðandi stundar. Ég er spurð út í það hvort ég styðji ekki Ríkisútvarpið. Að sjálfsögðu geri ég það, í þessari umfjöllun og í þessari orrahríð. Ég vil líka segja að mér finnst Samherji ganga of langt í viðbrögðum sínum. Mér finnst eins og þetta sé gert til að þreyta laxinn og vonast til þess að hann gefist upp. En þessi lax sem þeir eru að fást við bregst frekar þannig við að hann styrkist, hann syndir á móti straumnum og heldur áfram. Ég tel að stjórn Ríkisútvarpsins hafi brugðist rétt við, hvernig þau hafa tekið á þessu máli. Það er mín skoðun að það skipti öllu máli að fjölmiðlar séu frjálsir og að við styðjum að sjálfsögðu við Ríkisútvarpið okkar, og ég tel að Samherji hafi gengið of langt.