Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið, sem ég verð nú að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á. Ég held að það sé alltaf gott viðmið að vilji löggjafans komi skýrt fram í lagaákvæðum. Og ef við viljum að þessum milliríkjasamningum sé ekki beitt ef það leiðir til lakari niðurstöðu fyrir viðkomandi er mikilvægt, að okkar mati í minni hlutanum, að skrifa það inn í ákvæðið. Þess vegna leggjum við það til atkvæða hér í þingsal.

Það eru aðrar tillögur sem ég mun fara yfir í nefndaráliti minni hlutans hér á eftir. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að það sé eitthvað bjagað við það að fjármagnstekjur barna komi til frádráttar samkvæmt almannatryggingalögunum til foreldris sem tekur lífeyri, er þarf að treysta á lífeyri. Í lögunum er þessu í rauninni bara stillt þannig upp að það sé á ábyrgð barns að sjá fyrir foreldrum sínum. Það eru einhvern veginn skilaboðin. Eigi barn einhverja peninga inni á bók sem skila einhverjum fjármagnstekjum þá lækka greiðslurnar til foreldris sem því nemur. Við leggjum til að þessu verði breytt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála því að það sé réttlætismál að breyta þessu.