154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

rafeldsneytisframleiðsla.

[14:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Forseti. Okkur sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd eru í fersku minni hinar glaðbeittu viðtökur kollega okkar í Skotlandi þegar við fórum þangað í fyrra. Þeir komu valhoppandi á móti okkur og buðu okkur hjartanlega velkomna sem hluta af nýju grænu orkuríkjunum. Nýja græna Arabía, sögðu þeir við okkur. Hafandi verið í sveit í Skotlandi sem unglingur verð ég að viðurkenna að mér var nokkuð brugðið yfir því að sjá mína gömlu sveit jafn þakta 200 metra háum súlum með Mercedes Benz-merkinu að snúast hvert sem litið var. Ég segi það enn og aftur hér úr þessum stóli að ég er hlynntur því að við nýtum orkuna okkar og gerum úr henni sem mest verðmæti fyrir okkur og aðra sem vilja eiga við okkur viðskipti. En ég vil ekki fórna okkar dýrmætu víðernum sem eru eitt aðalaðdráttarafl okkar Íslendinga sem ferðamannaþjóðar. Við þurfum að velja af kostgæfni þá staði sem verða settir í þetta vegna þess að þetta er allt annað en fallegt að mínu viti. Og þar sem við skyldum slysast til að gera þetta þar sem umferð verður myndi ég vilja leitast við að gera það að einhvers konar viðburði í litum og hljóðum þannig að þessir hreyflar myndu verða fallegir og eftirsóknarverðir að horfa á og heimsækja, þ.e. ef þessu skyldi verða fyrir komið annars staðar en á jöðrum. Svo eru auðvitað straumarnir og annað slíkt sem verið er að nýta í Orkneyjum og víðar og meðfram eylöndum. Ég er sum sé jákvæður gagnvart hugmyndinni en vil bara að við göngum skynsamlega inn um gleðinnar dyr. (Forseti hringir.) Þetta gæti fært okkur gríðarleg verðmæti til langrar framtíðar en við skulum gæta okkar að gera þetta allt rétt.