135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Fyrst vil ég taka fram að ég tel að miðað við gildandi lög í landinu hafi verið gjörsamlega ómögulegt fyrir hæstv. umhverfisráðherra að komast að annarri niðurstöðu í því kærumáli sem hér um ræðir en raun bar vitni. Ég held að umhverfisráðherra hafi sýnt vandaða stjórnsýslu í þessum efnum og komist að þeirri niðurstöðu sem lög gáfu tilefni til.

En varðandi annað efni sem vakin hefur verið athygli á í þessari umræðu, þ.e. varðandi hugsanlegar breytingar á stjórnarskránni, þá vildi ég bara minna á til skýringar að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að áfram verði haldið vinnu við stjórnarskrárbreytingar á grundvelli þeirrar nefndar sem var að störfum á síðasta kjörtímabili og þá yfirlýsingu hefur hæstv. forsætisráðherra ítrekað hér í þinginu. Það liggur fyrir að þetta verkefni, endurskoðun stjórnarskrárinnar á mjög breiðum grundvelli, verður tekið aftur upp síðar á þessu kjörtímabili sem ég þarf ekki að minna hv. þingmenn á að er rétt nýhafið.

Tímasetningar í því sambandi liggja ekki fyrir en ég held að það sé ljóst að þeirri vinnu verður markaður endapunktur þegar kjörtímabilinu lýkur vegna þess að engin áform eru uppi um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga fyrr en að því kemur. (Gripið fram í.) Og ég held að engin leið sé að túlka ummæli umhverfisráðherra þannig að hún hafi gert ráð fyrir því að stjórnarskrárbreyting um þetta efni taki gildi á morgun eða hinn. Ég held að enginn hafi getað túlkað það þannig. Ekkert í ummælum hennar gaf tilefni til þess þó hún lýsti þeirri skoðun sinni að hún teldi æskilegt að inn í stjórnarskrána kæmi ákvæði sem undirstrikaði mikilvægi íslenskrar náttúru.

Þetta er reyndar atriði sem var rætt töluvert (Forseti hringir.) í stjórnarskrárnefnd á síðasta kjörtímabili og var umdeilt, m.a. á þeim grundvelli að erfitt yrði að (Forseti hringir.) mynda skýran lagatexta um einhver almenn og óljós (Forseti hringir.) stefnumið að þessu leyti. En það er lagalegt, stjórnskipunarlegt og tæknilegt efni frekar en deila um pólitísk atriði. (Forseti hringir.)