135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki nema tíu mínútur til að svara þeim fjölmörgu ræðum sem hér hafa verið fluttar og gat því ekki komið inn á allt sem þar var nefnt, hvorki hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni né öðrum. Tvennt hefði ég þó gjarnan viljað tala um og það er annars vegar varðandi Tíbet og hins vegar Vestur-Sahara því að það er ekki fjallað sérstaklega Vestur-Sahara í skýrslu minni, ef ég man rétt.

Varðandi Tíbet þá er staðan sú að Dalai Lama er leiðtogi Tíbeta, ekki bara andlegur heldur einnig pólitískur leiðtogi. Þar er ekki gerður greinarmunur á því hjá Tíbetum. Hann er þeirra leiðtogi og hefur farið fram á aukið sjálfræði héraðsins en ekki sjálfstæði frá Kína. Þar af leiðandi finnst mér að þá sé það ekki uppi á borðinu af hálfu íslenskra stjórnvalda að fara að lýsa yfir því að Tíbet eigi að verða sjálfstætt og fullvalda ríki þegar leiðtogi þeirra er ekki einu sinni með það í sinni stefnu. En það breytir ekki því að auðvitað ber kínverskum stjórnvöldum að virða og gæta mannréttinda og meðalhófs í öllum sínum aðgerðum varðandi Tíbet. Við höfum fylgt þessari stefnu eins og önnur Vesturlönd, þessari eitt Kína -stefnu sem þýðir það að við lítum á Tíbet og Tævan sem hluta af Kína og við höfum ekki séð neina ástæðu eða forsendu til að breyta því.

Varðandi málefni Vestur-Sahara þá styðjum við að sjálfsögðu friðarumleitanir Sameinuðu þjóðanna þar og höfum lagt áherslu á að reyna að ná (Forseti hringir.) fram pólitískri lausn sem byggir á sjálfsákvörðunarrétti þess fólks sem í Vestur-Sahara býr.