135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:27]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á mikilvægi alþjóðlegar ímyndar Íslands í ræðu sinni en fleiri hafa haft mörg orð um það í dag. Ég tel brýnt að við stöndum vörð um nákvæmlega þetta á alþjóðavettvangi vegna þess að þetta hefur mjög mikið að segja um framgang okkar á því sviði.

Mig langar að nýta tækifærið til að koma inn á eitt afmarkað mál sem tengist kafla skýrslunnar um mannréttindi. Það snýr að ímynd Íslands og skuldbindingum okkar gagnvart alþjóðasamningum. Þetta tengist eflingu og verndun alþjóðlegra mannréttinda, þ.e. áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og viðbrögðum okkar í því máli. Við erum í framboði til öryggisráðsins og viljum standa vörð um ímynd Íslands á alþjóðavettvangi. Ég tel afar brýnt og mikilvægt að við komum fram á þann máta að við séum sannfærandi og sýnum að við séum öll af vilja gerð í þeim efnum. Það hefur áhrif á það hvernig önnur lönd líta á álit mannréttindanefndar í framtíðinni. Við þurfum að fara fyrir með góðu fordæmi.

Samfylkingin hefur talað mikið um fiskveiðistjórnarkerfið á undanförnum árum. Ég velti því fyrir mér hvort hún muni nýta tækifærið til að fara í heildarendurskoðun á því, eins og nefndin telur að gera þurfi, þ.e. að endurskoða það að einhverju leyti og við vitum það öll sem hér sitjum að nefndin er ein af virtustu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og því mikilvægt að við fylgjum áliti hennar.

Mig langar að koma inn á frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um varnarmál. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd í dag að lögfesta á þátttöku Íslands í hernaðarstefnu. Í fyrsta sinn mun Ísland taka þátt í hernaði NATO. Á þessu ári á að setja 1.500 millj. kr. í varnarmál, fyrir utan þann kostnað sem heræfingar munu hafa í för með sér. Á síðasta ári var kostnaður við heræfingar hér á landi 150 þús. kr. á hvern hermann. Það er hægt að gera margt fyrir þá upphæð. Það er hægt að gera ansi margt til að treysta innviði samfélagsins til aukins jöfnuðar fyrir slíkar upphæðir. Við erum að tala um 150 þús. kr. á hvern hermann sem kemur hingað. Ríkisstjórnin bindur veru herliðs á Íslandi á friðartímum með ákvæði um heræfingar rétt eftir að við höfum fagnað því að herinn sé farinn.

Meginforsenda frumvarpsins er að Ísland sé herlaus þjóð. Ég tel rangt að halda þessu fram. Ég get ekki stutt að þetta sé meginforsenda frumvarpsins þegar það ýtir undir hernaðarbrölt. Ríkisstjórn Íslands leggur fram frumvarp um varnarmál. Varnarmálastofnun kostar 1.350 millj. kr. og að viðbættum kostnaði við aðild að NATO er kostnaðurinn rúmar 1.500 millj. kr. Það eru upphæðir sem hin herlausa þjóð eyðir í hernað á friðartímum. Mér finnst þetta magnað og er eiginlega hálfgapandi yfir þessu.

Ég tel að við ættum frekar að nýta fjármuni okkar til að styrkja innviði íslensks samfélags. Ég geri mér grein fyrir því að það er mikilvægt að styrkja stöðu Íslands á erlendum vettvangi. Það vitum við öll og erum öll sammála um það en spurningin er: Hvernig ætlum við að gera það og á hvaða sviði? Ég tel mikilvægara að auka framlagið til Þróunarsamvinnustofnunar ef við viljum verja þeim peningum í útlöndum. Hugsanlega gætum við aukið það ríflega og aukið þannig hlutfall þess sem við verjum til þróunarmála.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta efni í dag. En mig langar að ítreka að ég get ekki stutt áðurnefnt frumvarp. Skýrslan er góð og gott að fá þetta yfirlit en ég hefði viljað sjá aðrar áherslur af hálfu ríkisstjórnarinnar.