135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:25]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki lýst yfir sömu ánægju með ræðu hv. þm. Guðfinnu Bjarnadóttur nú eins og ég gerði eftir aðalræðu hennar. Þótt skilningur okkar á mannréttindum sé vissulega með ýmsu móti þá getum við kannski frekar sameinast um skilning okkar á kúgun. Það hefur ekki farið á milli mála, og ekki verið neitt launungarmál þeirra sem kynnt hafa sér Asíulöndin, hvort sem þeir horfa á þau út frá menningu þess svæðis eða út frá sjónarhorni Vesturlandabúa, að meðferð Kínverja á Tíbetum hefur verið forkastanleg.

Ég rakti þetta mál lítillega fyrr í dag. Vissulega má halda því til að haga að ástandið þar hefur batnað á síðustu árum en engu að síður er brýnt að við styðjum þær kröfur sem uppi eru. Það var spurningin sem ég lagði fram, hvort hv. þingmaður teldi að við gætum þurft að endurmeta afstöðu okkar vegna þeirra atburða sem nú eiga sér stað í Tíbet eða hvort hún telji fullnægjandi að afgreiða hlutina með jafnafgerandi og ódýrum hætti, liggur mér við að segja, og utanríkisráðherra gerði þegar hún fullyrti að þeir atburðir sem nú eiga sér stað muni engin áhrif hafa á afstöðu okkar til kröfu Kínverja um algjör yfirráð yfir Tíbet.

Það er mjög mikilvægt að við stöndum vörð um mannréttindi þjóða sem ekki eiga sér málsvara, sem hafa í rauninni ekki möguleika á að bera hönd yfir höfuð sér vegna kúgunar í heimalandi sínu og vegna þess að um hersetið land er að ræða. Sömu meginreglur gilda um Tíbeta og margar aðrar undirokaðar þjóðir eins og Palestínumenn, Vestur-Saharamenn og fleiri.