135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:53]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ísland hefur sérstöðu sem herlaust land í þessum heimi og ég harma í raun hversu lítið er gert úr þeirri sérstöðu í skýrslunni. Mér virðist við lestur hennar að í raun flækist sú staðreynd frekar fyrir annars góðum markmiðum, jafnvel verkum og yfirlýsingum, og það er því miður ansi grunnt niður á gamla tóninn um hversu brýnt sé að hafa hér her eða samvinnu um hernað og við séum í NATO. NATO svífur undir og yfir og allt um kring í þessu plaggi eins og ég mun koma að aðeins á eftir.

Það reif sig upp gamall blaðamaður í mér þegar ég fletti þessari skýrslu. Ég var einu sinni þingfréttaritari og sat yfir skýrslum sem þessum og reyndi að pikka eitthvað út og mig langar til að nefna hér tvo fréttapunkta sem vöktu sérstaka athygli mína. Hvorugur þeirra er gleðiefni.

Það er mjög miður, eins og kemur fram í skýrslunni, að á árinu 2009 munum við Íslendingar aðeins verða hálfdrættingar á við markmið Sameinuðu þjóðanna um þróunaraðstoð því þá mun samkvæmt áætlunum 0,35% af vergum þjóðartekjum okkar varið til þróunaraðstoðar, þróunaraðstoðar og þó ekki þróunaraðstoðar vegna þess að inni í þeirri tölu og þeirri tölu sem nú er skráð sem þróunaraðstoð eru framlög til svokallaðrar friðargæslu og meðan friðargæslan er ekki klárlega borgaraleg starfsemi heldur starfsemi sem lýtur stjórn fjölþjóðahers og er undir vopnum þá mun ég alla vega líta svo á að þetta fari ekki saman. Markmið laganna um friðargæsluna voru skýr og margt þar gott að finna að mínu viti. En það verður að skilja þarna á milli meðan svona er. Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, að það eru næg verkefni utan hernaðarátaka til að sinna friðaruppbyggingu og þróunaraðstoð. Ég tel, og við teljum vinstri græn, að það eigi að kalla þetta lið heim frá Afganistan og sinna öðrum verkefnum.

Hin fréttin sem mig langar til að gera að umtalsefni, herra forseti, varðar fangaflugið og er að finna á bls. 28 og 29 í þessari skýrslu. Það veldur mér miklum vonbrigðum að niðurstaðan er sú að eftirlitið með loftförum sem lenda á Íslandi er dæmt fullnægjandi af hálfu allra sem hafa slíkt lögbundið hlutverk með höndum en staðfest er við athugun að loftför sem kunna að tengjast meintu fangaflugi leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa haft viðkomu á Íslandi, hafa farið um íslenska lofthelgi á tímabilinu 2001–2007 sem kannað var. Til að gera þetta fullnægjandi eftirlit enn betra stendur til, ekki á morgun heldur hinn, að biðja flugstjóra að upplýsa í flugáætlun ef um borð sé einstaklingur sem sé frelsissviptur með einhverjum hætti. Og hvað svo? Ef það skyldi koma svar: „Já, við erum með fanga á leið til Guantanamo“, hvernig á að bregðast við því? Það veldur mér miklum vonbrigðum að ekki er gert ráð fyrir auknu eftirliti, að það verði bannað að misnota flugvelli á Íslandi til mannréttindabrota af þessu tagi heldur skal óskað bara pent eftir tilkynningu um hvort fangar séu í flugvélum sem fyrirhugað er að lendi hér.

Þátttaka okkar Íslendinga í alþjóðasamstarfi er margþætt og hún byggist á aðild okkar að alþjóðasamningum í samstarfi við önnur ríki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, á vettvangi Norðurlandaráðs og á vettvangi Evrópuráðsins svo nokkuð sé nefnt. Hún byggist líka á þróunaraðstoð og samvinnu um að koma þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í framkvæmd um að útrýma fátækt og hungri í heiminum, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun og mannréttindabrotum hvers konar. Allt krefst þetta, herra forseti, mikilla fundahalda svo sem lesa má af skýrslu utanríkisráðherra. Ég átti þess til að mynda kost ásamt fjórum öðrum þingkonum og stórri og fjölmennri sendinefnd á vegum félagasamtaka að sitja 52. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í febrúar síðastliðnum. Ég vil segja það hér að ég fagnaði þar framlagi hæstv. ráðherra og reyndar annarra þeirra fulltrúa Íslands sem þar tóku þátt í umræðum og fyrirlestrum um aðskiljanleg efni sem eðli málsins samkvæmt snertu einkum stöðu og vernd kvenna og barna, aukna þátttöku kvenna í friðarviðræðum og uppbyggingu eftir stríðsátök í samræmi við ályktun 1325. Á þessum fundi var fjallað um kynjuð fjárlög eða „gender budgeting“ sem við eigum því miður langt með hér á landi að koma til framkvæmda og þar var einnig hleypt af stokkunum átaki til að binda enda á ofbeldi gegn konum. Miklar vonir eru bundnar við að það muni skila árangri.

Á undanförnum dögum hefur orðið umræða hér á landi, ekki síst á vinnustöðum en einnig í þinginu, um ferðir íslenskra ráðamanna, eins og hæstv. forsætisráðherra orðar það, á fjölþjóðafundi, meðal annars á NATO-fundinn í Búkarest sem hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra sátu. Ég tel mjög mikilvægt að ráðamenn taki þátt í alþjóðasamstarfi með fundasetum og ferðalögum sem þau krefjast. En ég hafna því að gagnrýni á ferðamáta ráðherranna sem sóttu NATO-fundinn á dögunum á einkaþotu sem frægt er orðið sé lágkúra því ef menn meina eitthvað með stóru orðunum um að draga úr loftslagsbreytingum með því að minnka kolefnislosun þá er einkaþota ekki rétta leiðin, herra forseti, reyndar ekki heldur og allra síst þegar þessir sömu ráðamenn hvetja almenning til að herða sultarólina og draga úr útgjöldum og neyslu. Menn eiga í þessum efnum, herra forseti, að sýna gott fordæmi og deila kjörum með þjóð sinni.

Tvískinnungurinn í loftslagsmálunum er víðar. Það er því miður ekki nóg að tala fjálglega á fundum í útlöndum og taka þar undir metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og það er ekki nóg að ríkisstjórn og Alþingi setji sér markmið í þeim efnum. Þeim verður að fylgja áætlun með tilteknum mælikvörðum. En því miður liggur engin slík áætlun fyrir hér á landi.

Norðurslóðir fá verðugan sess í skýrslunni en þar kemur þessi hernaðarlega slagsíða því miður einnig fram. Í kaflanum um endurnýjanlegar orkulindir er lögð áherslu á að finna þurfi nýja orkugjafa og orkutækni sem geti leyst jarðefnaeldsneyti af hólmi. En þar sem fjallað er um áhrif loftslagsbreytinganna á norðurslóðum er einnig talað um tækifæri í tengslum við aukna sókn í auðlindir norðursins, í olíu og gas sem þar kann að finnast. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að efla samstarf norðurskautsþjóðanna átta eins og áréttað er í skýrslunni og ég tek undir það einnig að það er mikilvægt að hernaðarleg umsvif á norðurslóðum skipi ekki norðurskautsríkjum í gamlar eða nýjar fylkingar og að barátta um auðlindir á þeim slóðum norðan við landið megi ekki leiða til nýrra átaka eða til hernaðarumsvifa.

Herra forseti. Það er því einstaklega illa til fundið að fyrirhugað er að halda hér á landi sérstaka ráðstefnu um horfur í öryggismálum á norðurslóðum á næsta ári, ekki á vegum norðurskautsráðsins, ekki á vegum loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, ekki á vegum Norðurlandaráðs, ekki á vegum Evrópuráðsins. Nei. Þessi ráðstefna, herra forseti, á að vera á vegum NATO og það segir hér, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld hafa tekið boði Atlantshafsbandalagsins um að halda hér á landi í byrjun næsta árs sérstaka ráðstefnu um horfur í öryggismálum á norðurslóðum.“

Þetta mun verða á sama tíma og 60 ár slétt verða liðin frá inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Ég lýsi andstöðu við þessa fyrirætlan, herra forseti. Samstarf um öryggi á norðurslóðum á ekki að vera hernaðarlegs eðlis. Ég skora á ráðherrann að efna til ráðstefnu um málefni norðursins á forsendum friðar en ekki á forsendum hernaðar.