135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:24]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum heyrt það skýrt af svörum tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokks sem hér hafa svarað spurningu minni að þeir eru í raun sáttir við þá stefnu í málefnum Tíbets sem utanríkisráðherra hefur markað. Það er gott að það sé á hreinu.

Ég hef lýst efasemdum mínum um að atburðir þar austur frá geti í engu breytt afstöðu okkar til þessara mála. Ég held að við þurfum að fara varlegar í að fullyrða slíkt. Ég hef þegar hrósað því að utanríkisráðherra hafi gert athugasemd við mannréttindabrot í Tíbet. Það er mikilvægt. En það er líka mikilvægt að við þorum, burt séð frá viðskiptahagsmunum, framboði til öryggisráðs og öðrum þeim hagsmunum ógnað geta varðandi fríverslunarsamning við Kínverja, að segja þeim refjalaust meiningu okkar í þessum efnum.

Ef aðstæður bjóða upp á ættum við að fara fram á að Kínverjar endurskoði stefnu sína varðandi það að Tíbet sé um aldur og ævi þeirra eign. Tíbet á sér sögu sem sjálfstætt þjóðríki. Það ber okkur að virða. Þótt Tíbetar hafi ekki gert þessa kröfu með afgerandi hætti undanfarin ár, þ.e. krafist sjálfstæðis, þá er það að athuga að þeir hafa einfaldlega ekki haft frelsi til að gera þá kröfu. Þeir búa í landi þar sem mannréttindi og málfrelsi eru ekki virt þannig að þjóðir geti gert slíkar kröfur.