Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[13:41]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður þarf nú svo sem ekkert að vera að grobba sig af því þegar maður fer í heimsóknir en ég vissulega heimsótti Árbæinn eða Fylki og reyndar setti aðeins af ráðstöfunarfé ráðherra til þeirra vegna þess að ég heillaðist af þessu starfi sem þarna er. Og já, ég fór nú í smá æfingar með þeim, langt síðan ég hafði farið í eróbikk þannig að það sé upplýst hér fyrir þingheimi, og ég náði ekki alveg að fylgja þeim eftir, svo að það sé sagt. En það er nú kannski ekki eitthvað sem ráðherra á að vera að tjá sig hér um í pontu Alþingis. (Gripið fram í.) En mig langar líka að upplýsa hv. þingmann um að ráðuneytið hefur verið að styrkja ÍSÍ og Landssamband eldri borgara um mjög áhugavert og spennandi verkefni sem heitir Bjartur lífsstíll. Það er verkefni þar sem þessi tvö ágætu félög eru að fara um landið til þess að bæði skrá hvar er um virkni í formi hreyfingar að ræða fyrir eldra fólk og hvernig væri hægt að auka hana, koma henni betur fyrir eða til hvaða leiða ætti að grípa. Ég hef rætt þetta m.a. við ÍSÍ, að mér finnist það vera eitt af hlutverkum íþróttahreyfingarinnar að stíga þarna inn í og eitthvað sem ég held að við ættum að geta gert. En það eru full tækifæri í gegnum þessa aðgerðaáætlun. Ég bendi hér á aðgerð B.1 sem ber nafnið Alhliða heilsuefling. Hægt er að vinna með akkúrat þessi atriði sem hv. þingmaður nefnir hér þar.