138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

staðan að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:50]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér stöðuna að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, þeirri fyrstu í lýðveldissögunni, og henni ber að fagna því að með henni er mikið unnið. Við stöndum á tímamótum. Nú eru sérstakir tímar og þeir krefjast sérstakra lausna. Nú er ekki rétti tíminn fyrir pólitíska sandkassaleiki. Þingheimur og stjórnvöld þurfa að sýna siðferðislega forustu og að verkefnin séu okkur ekki ofviða. Við getum ekki boðið þjóðinni upp á það að ráðamenn þjóðarinnar og hv. þingmenn rífist linnulaust um það sem þeir eru ósammála um. Við þurfum að finna sameiginlega snertifleti og sjá það sem við erum sammála um. Við verðum að gefa fólki von og forgangsraða á nýjan leik.

Samstöðu er þörf. Samstaða virkar. Síðustu vikur hafa forsvarsmenn allra flokka tekið höndum saman og náð að mjaka þessu erfiða máli í farsæla átt. Því starfi þarf að halda áfram á forsendum sem við getum öll sameinast um.

Samkvæmt Þjóðarpúlsi Capacents Gallups segjast aðeins 13% Íslendinga bera mikið traust til Alþingis. Hvers vegna ætli það sé? Hver er ábyrgð okkar þingmanna? Og hvað ætlum við að gera til þess að auka tiltrú fólks og kveikja hjá því von um réttlátara samfélag?

Uppbygging Íslands er mikilvægari en einstakar persónur, hæstvirtar og háttvirtar sem óbreyttar, mikilvægari en stjórnmálaflokkarnir eða einstakir hagsmunahópar. Hagsmunir íslensks almennings verða að vega þyngra en hagur forneskjulegs flokkakerfis með þeim skotgrafahernaði sem honum hefur fylgt. (BirgJ: Heyr, heyr.) Samstöðu er þörf og það hefur sýnt sig að hún hefur virkað. Stærstu mistökin í upphafi þessa máls voru þau að bjóða ekki öllum að borðinu, gera alla samábyrga fyrir lausn Icesave-málsins. Nú er að horfast í augu við þau mistök, læra af þeim og halda áfram.

Frú forseti. Eftir hrunið kom fram sterk krafa um ný stjórnmál. Sú krafa á enn rétt á sér og hún er forsenda fyrir því að við komum okkur út úr þessum pólitíska botnlanga. Vilji er allt sem þarf til þess.