Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

förgun dýraafurða og dýrahræja.

441. mál
[18:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og eins hv. þingmönnum Orra Páli Jóhannssyni og Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir sín innlegg og spurningar. Þær eru mikilvægar. Við þurfum að hraða okkur í þessum málum því að EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar hvað varðar meðferð dýraleifa, einkum með því að hafa ekki komið fram með viðeigandi kerfi til að meðhöndla dýraleifar með þeim hætti sem mælt er fyrir í lögunum né eftirlitskerfi til að tryggja að þessum lagafyrirmælum sé fylgt. Dómstóllinn sagði einnig að íslensk stjórnvöld hefðu látið hjá líða að koma í veg fyrir að dýrahræ, sláturúrgangur af áhættuflokki 3, úrgangur frá heimaslátrun, væru urðuð á viðurkenndum urðunarstöðum og að koma í veg fyrir að dýrahræ og úrgangur frá heimaslátrun séu grafin á staðnum án þess að uppfyllt séu skilyrði reglugerða.

Hæstv. ráðherra talaði um að hann hafi verið að koma af fundi með sveitarfélögunum. Þá hefur hann örugglega fengið ábendingu um minnisblað, sem má finna núna á heimasíðu sambandsins, sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu taka saman. Minnisblaðið fjallar um ráðstöfun dýraleifa, þar með talið um ábyrgð sveitarstjórna og mögulegar úrvinnsluleiðir, og er ætlað að varpa ljósi á skyldur sveitarfélaga hvað varðar ráðstöfun dýraleifa, svo og helstu ráðstöfunarleiðir sem nú eru tiltækar og til greina kæmi að byggja upp — tillögur um það. Það er örugglega gott að glugga í þessa samantekt til þess að við komumst áfram í þessari vinnu og getum þá uppfyllt þau skilyrði sem við sjálf höfum sett, auk þess sem hollustu- og verndarlög segja til um.