Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

förgun dýraafurða og dýrahræja.

441. mál
[18:34]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. þingmönnum, bæði málshefjanda og þeim sem hér taka þátt, fyrir gott innlegg og málefnalega umræðu. Af því að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir lýsir smithættu og óhóflegum flutningskostnaði, hv. þm. Orri Páll Jóhannsson spyr um skoðanir þess sem hér stendur á færanlegum brennsluofni og málshefjandi, hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir, ræðir um minnisblað frá landshlutasamtökum, þá finnst mér bara mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa það í huga að ráðuneytið getur ekki gripið inn í og tekið ákvarðanir eða sagt aðilum að fara einhverjar ákveðnar leiðir. Mér þykir það vera hæpið, virðulegi forseti, þar sem þetta er á ábyrgð sveitarfélaganna. Það sem við hins vegar höfum gert, og átt fjölmörg samtöl út af þessu, er að við höfum bara sagt að ef það er eitthvað sem við getum gert til að liðka fyrir að góð lausn finnist þá gerum við það.

Það er alveg hárrétt að það verður að huga að smithættu og það þarf að lágmarka flutningskostnaðinn. Færanlegur brennsluofn hefur oft verið nefndur. En ég held að það sé gott að skoða hvað aðrar þjóðir hafa gert sem eru í svipaðri stöðu og við. Þó að við séum með okkar sérstöðu hérna, eyja í miðju Norður-Atlantshafi, þá eru samt sem áður fleiri svæði, m.a. á Norðurlöndunum, þar sem þú ert með fátt fólk á stóru landsvæði. Þau eru með sitt fyrirkomulag og ég tel mjög skynsamlegt að skoða og kanna hvort við getum ekki nýtt okkur reynslu þeirra. Við verðum að finna lausn á þessu og því fyrr því betra, þó að auðvitað munum við hins vegar alltaf sitja uppi með, vegna þess að við erum hér að vinna með hringrásarhagkerfi, að við viljum nýta sem allra mest þannig að þetta vandamál verði sem minnst. En það mun aldrei hverfa (Forseti hringir.) af ástæðum sem hv. þingmaður og málshefjandi hefur vísað til. En við höfum lýst okkur reiðubúin til að vinna með sveitarfélögunum að lausn þessara mála.