154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og gott að vita að hann fylgist með. En ég held að það sé mikilvægt að við gerum meira en að fylgjast með og reynum aktíft að þrýsta á þetta. Eins og kom fram á fundi laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins af hálfu sérfræðings í bandarískum stjórnmálum þá er það svo að ef það sama á að koma til frá Bandaríkjunum þá þarf það helst að gerast, og meira en helst, á líftíma þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd í Bandaríkjunum vegna þess að það er ekkert í hendi eftir kosningarnar. Þar af leiðandi er komin svolítið tímapressa á að klára þetta af hálfu Evrópu og ég held að þetta þurfi að gerast samhent og þetta þurfi að gerast beggja vegna Atlantshafsins. Ég veit að Kanadamenn eru mjög áfram um þetta og ég veit að Bandaríkjastjórn er mjög áfram um þetta þannig að það sem í raun er að draga úr er einmitt Evrópuhliðin. Ég held að við verðum að átta okkur á því að tíminn líður í þessum efnum. Ég held að þetta væri gott tækifæri fyrir okkur Íslendinga að byggja á því sem við getum verið stolt af, sem er að hafa á leiðtogafundinum komið á tjónaskránni fyrir Úkraínu og þetta er rökrétt skref í framhaldi af því, að þrýsta á að þessar eignir verði notaðar til að greiða einmitt fyrir það tjón sem Úkraínumenn verða fyrir.

En að öðru sem tengist líka þessari tillögu. Ég tek eftir því að hér er ekki lagt til að aflétta innflutningsgjöldum eða tollum á vörum frá Úkraínu eins og hefur verið gert og er gert víða í löndunum í kringum okkur. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji enga þörf á því, finnist það ekki rökrétt skref í stuðningi við Úkraínu að aflétta tollum af vörum frá Úkraínu.