Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

forseti COP28.

698. mál
[18:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Það er kannski rétt að byrja á því að taka undir með hæstv. ráðherra að Sameinuðu arabísku furstadæmin eru með þeim metnaðarfyllri í hópi olíuframleiðsluríkja þegar kemur að því að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa. Vandinn er að samhliða því eru þau ekki að setja sér markmið um að draga saman framleiðslu olíu og gass. Þannig er t.d. á teikniborðinu næstu þrjú árin að auka framleiðslu, þá væntanlega fyrirtækisins sem Sultan Al Jaber stýrir, svo mikið að það myndi valda losun upp á 2,7 gígatonn af koltvísýringi.

Auðvitað þurfum við að tala við öll ríki, auðvitað þurfum við að draga öll ríki að borðinu, en sú hætta sem myndast á þessum fundi næsta haust er að þar muni olíuframleiðsluríki, sem hefur verið duglegt í að mála sig grænt, fá tækifæri til að grænþvo sig alveg í botn. Þó að það þurfi auðvitað að taka þátt í samtalinu þá er ekki þar með sagt að það sé eðlilegt að það stýri samtalinu. Þó svo að þetta sé samtal á milli nærri 200 ríkja þar sem komist verður að sameiginlegri niðurstöðu hefur formaðurinn mikið um þá niðurstöðu að segja.

Hæstv. ráðherra segir að það væri einsdæmi ef Ísland myndi gera athugasemd við formennsku ráðstefnunnar. En það er líka einsdæmi að forstjóri olíufyrirtækis stýri svona ráðstefnu. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Hann er starfandi forstjóri þessa fyrirtækis. Hagsmunaárekstrarnir verða ekki skýrari. Það eru ekki einu sinni uppi áform um að hann víki stöðu sem forstjóri (Forseti hringir.) þetta ár sem hann gegnir forsæti í loftslagssamningum. Það hlýtur að vera einhver flötur fyrir Ísland að (Forseti hringir.) gera athugasemd við þessa stöðu sem er einsdæmi og er ólíðandi.