140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[16:44]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans í morgun. Það er margt sem mig langar til að ræða við hann í tengslum við þetta. Í hinni yfirgripsmiklu skýrslu hans er fjallað um Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO og mig langar til að forvitnast um hvort hann deili þeirri skoðun með mér að Doha-viðræðurnar sem þar hafa staðið séu í ákveðnu uppnámi. Þegar hrunið varð hér 2008 varð hrun í fleiri ríkjum en á Íslandi og hefur víða verið erfitt síðan. Á þessum tímamótum virðist sem þjóðir innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafi farið að hugsa mjög mikið inn á við og horft kannski meira til þess að styðja við sinn landbúnað en þær höfðu áður gert. Þess vegna hef ég áhyggjur og held að tilhneigingin sé í viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að Doha-viðræðurnar séu í ákveðnu uppnámi. Það væri gaman að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála mér um þetta.

Mig langar enn fremur til að ræða svolítið um skipan hópa og tilnefningar í bæði samningahópa og svo samráðshóp. Ég fylgdist svolítið með þeim samráðshópi sem stofnaður var undir forustu Salvarar Nordal og mig langar til að forvitnast um vinnubrögð utanríkisráðuneytisins við slíkar hópaskipanir og tilnefningar. Þarna eru meðal annars skipaðir menn sem eru bændur, prýðismenn, en það virðist ekki hafa verið haft samráð í þessu tilfelli við hagsmunaaðila. Það er eins og utanríkisráðuneytið handvelji í þessa hópa menn sem eru því þóknanlegir. Enn fremur hef ég oft verið hugsi yfir skipan samningahóps t.d. um landbúnaðarmál þar sem í rúmlega 20 manna hópi eru þrír fulltrúar hagsmunaaðila landbúnaðarins, ég velti því mjög fyrir mér hvort faglega hafi verið að því staðið á sínum tíma.

Í þessari skýrslu er þó nokkuð talað um fríverslunarsamninga sem eru góðir og gildir og áhugavert að verða vitni að því að um leið og þessi Evrópusambandsumsókn eða umsóknarferli stendur yfir stefni menn að fríverslunarsamningi við Kína sem er hið besta mál en segir manni jafnframt að ríkisstjórnin heldur þó áfram að vinna og heldur taktinum þrátt fyrir Evrópusambandsumsókn sem segir okkur kannski meira um það hve menn eru óvissir um að það geti gengið eftir. En það er alveg ljóst að ef af inngöngu í Evrópusambandið verður munu allir fríverslunarsamningar falla brott. Það mun meðal annars þýða að tollur leggst á ýmis aðföng til álframleiðslu sem eru flutt inn tollfrjálst í dag frá löndum utan Evrópusambandsins. Þetta getur þýtt milljarða kostnaðarauka fyrir áliðnaðinn en því hefur verið slegið fram að það gæti numið allt að 3 milljörðum. Enn fremur mun tollur leggjast á ýmis aðföng fyrir fiskvinnslu og fiskeldi. Eins er rétt að geta þess að við erum með tvo mjög hagstæða samninga um útflutning á lambakjöti, annan við Noreg og svo Hoyvíkursamninginn við Færeyjar, og við þessa breytingu mun koma 10% tollur á Færeyjar. Það er ljóst að með þessu mundi Noregsmarkaðurinn, sem er einn stærsti útflutningsmarkaðurinn fyrir íslenskt lambakjöt, þurrkast út og Færeyjamarkaðurinn yrði fyrir verulegu tjóni.

Það er líka áhugavert að hafa í huga varðandi þessa tolla að samkvæmt tollskrá eru um 27% tollskrárnúmera á Íslandi tolluð í dag en um 60% innan Evrópusambandsins. Við megum því gera ráð fyrir að mjög margar vörutegundir sem fluttar eru hingað í dag muni hækka í verði vegna þeirra tolla sem Evrópusambandið er með.

Ef ég fókusera kannski aðeins meira á landbúnaðinn langar mig í framhaldi af því sem kom fram í andsvörum hæstv. ráðherra við ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar — hvers dóttir er hún nú aftur?

(Forseti (SIJ): Árnadóttir.)

Árnadóttur, ég biðst afsökunar á þessu — þar sem talað var um að ferlið væri opið og gegnsætt og þar ætti allt að birtast á netinu um leið og mögulegt væri yrði það ekki til þess, eins og fram kom, að skaða samningsafstöðu eða hagsmuni. Nú er það svo að fundir í samningahópi um landbúnaðarmál voru tveir á árinu 2011 og enginn fundur hefur verið haldinn á árinu 2012. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er að gerast í kaflanum um landbúnaðarmál? Hvernig gengur sú vinna? Hvað líður samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum? Hver stýrir þeirri vinnu?

Það er ljóst að þessi hópur hefur ekki komið saman og það er náttúrlega ákaflega undarlegt og menn tali svo um opið og gegnsætt ferli hér.

Ég minni á að fyrrverandi hæstv. ráðherra landbúnaðarmála og núverandi hv. þingmaður, Jón Bjarnason, gerði lágmarkskröfur Bændasamtakanna í viðræðum við Evrópusambandið að sínum og sagði að varnarlínur Bændasamtaka Íslands væru grunnurinn að samningsmarkmiðum í landbúnaðarkaflanum.

Aðeins til upprifjunar þá eru þessar varnarlínur sjö. Sú fyrsta fjallar um rétt Íslands til þess að vernda heilsu manna og dýra og varðar meðal annars innflutning á lifandi dýrum, plöntum o.fl. Önnur er um frelsi til að styrkja íslenskan landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað. Sú þriðja er heimild til að leggja tolla á búvörur frá löndum Evrópusambandsins. Fjórða er um að tryggja félagslega stöðu bænda og afkomu þeirra. Ljóst er að margir bændur á Íslandi hafa fjárfest þó nokkuð mikið í framleiðslurétti eins og í mjólkurframleiðslu. Hver verður staða þeirra með nýrri landbúnaðarstefnu ef við göngum í Evrópusambandið? Sú fimmta er að Ísland verði skilgreint sem eitt svæði með hliðsjón af landbúnaði. Sú sjötta er réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda, eins og dúntekju og fleiri hlunninda. Menn þekkja veiðar á svartfugli og fleira, þ.e. nýtingu svartfugls, og svo eru eðlilegar varnir gegn rándýrum og meindýrum. Við þekkjum öll umræðuna um ref og mink en það hefur í gegnum tíðina verið erfitt mál og ljóst er að umhverfisráðherra hefur ekki mikinn áhuga á þeim málaflokki alla vega. Sú sjöunda er um að eignarréttarlegri stöðu bænda og landeigenda verði ekki raskað og aðgengi að góðu ræktunarlandi tryggt.

Þetta voru þær kröfur sem Bændasamtökin settu fram og eru í fullu gildi og voru ítrekaðar og yfirfarnar á nýafstöðnu búnaðarþingi. Það er mjög mikilvægt að fá svör við því hver stefna ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðherra er varðandi landbúnaðarkaflann, því að eins og þekkt er eru landbúnaðar- og sjávarútvegskaflarnir taldir þeir kaflar sem verða kannski hvað erfiðastir. Ég man eftir að menn töluðu frjálslega um að eðlilegt væri að byrja á þeim köflum til að klára erfiðustu kaflana fyrst en það varð nú ekki raunin.

Bændasamtökin hafa verið mjög öflug í málstað sínum. Þau hafa legið yfir þessu og fært góð rök fyrir því hvernig möguleg aðild að Evrópusambandinu kæmi niður á íslenskum landbúnaði. Þau rök hafa ekki verið hrakin og er mikilvægt að hafa það í huga. Þessi öfluga vinna hefur farið mjög í taugarnar á mörgum í þjóðfélaginu og ríkisstjórnin virðist hafa sent sína helstu varðhunda og leigupenna í að reyna að tala niður íslenskan landbúnað. Við þekkjum það vel, bændurnir, þegar kratískir hatursmenn íslensks landbúnaðar stíga á stokk en við verðum ekki beygðir og fögnum allri umræðu ef hún er málefnaleg.

Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um aðild að Evrópusambandinu segir, með leyfi með forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar.“

Það kom fram að mig minnir í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í dag varðandi tollverndina að menn verði að fara í sambærilegar aðgerðir í stað tollverndar. Ég vildi forvitnast um hvað menn eiga við með því. Ég veit að komið hefur út skýrsla þar sem reynt er að leggja fjárhagslegt mat á tollverndina, hvað tollverndin kostar, hvernig hægt er, ef hún verður felld niður, að rétta mönnum einhverja dúsu til þægðar. Þeir útreikningar hafa að mínu mati verið mjög ófullnægjandi þar sem ekkert tillit hefur verið tekið til meðal annars úrvinnsluiðnaðarins. Það hefði mikil áhrif á íslenskan úrvinnsluiðnað á landbúnaðarvörum ef hingað flæða innfluttar kjötvörur frá Evrópusambandinu, því að það er alveg ljóst að alifugla- og svínarækt á Íslandi mundi aldrei standast þá samkeppni og þar af leiðandi yrði allur rekstur á afurðastöðvum og kjötvinnslum hér á landi mun erfiðari.

Ég hef nú farið aðeins yfir það sem tengist landbúnaðinum í þessu. Ég legg áherslu á og geri alvarlega athugasemd við það að ekki séu enn komin fram samningsmarkmið fyrir landbúnaðarkaflann, því að það er löngu tímabært að þau komi fram. Ég geri athugasemdir við að samningahópurinn sem fjallar um það málefni hafi ekki fundað og spyr: Hvað líður samningsafstöðu í landbúnaðarkaflanum og hver stýrir þeirri vinnu?