133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:42]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að þingmaður þekkir mjög vel til kjara bænda og mér heyrist og hefur alltaf heyrst að það sé styttra á milli sjónarmiða okkar en hún vill vera láta. Auðvitað á að vera hægt að sjá hvert verðið er til bænda. Við erum ekki að tala um hvernig greiðslur fara til bænda eða að greiðslurnar fari annað. Ég rakti það áðan hvernig þetta skiptist.

Við höfum heldur ekki verið að tala um bændur. Við höfum talað um matarverðið almennt og við höfum talað um hvað þurfi að gerast til að það verði breytingar. Við höfum bent á uppsöfnunaráhrifin sem skekkja alla verðlagningu. Þess vegna lagði formaður matvælanefndar til að vörugjöldin yrðu alveg tekin af þrátt fyrir að það færi út neyslustýring á sykri, hún yrði bara að vera annars staðar vegna þess að þetta er flókið og þetta er flókið í verslununum og í kerfi og stýrikerfi. Sama er með tollana. Það er ógrynni af tollnúmerum og um leið og búið er að létta þessu af lækka tollar á vörum til bænda. Tollar á innfluttar vörur lækka sem gera þær ódýrari. Ég er sannfærð um, eins sannfærð og ég stend hér, að fólk mun áfram velja það besta. Þetta er kerfisbreyting sem skiptir máli.

Virðulegi forseti. Núna samkvæmt samningnum munu Bændasamtökin fá 3,2 milljarða á ári. Ég var að benda á að áætlað væri að niðurfelling tolla mundi skila í ríkiskassann um 1,8 milljörðum og það á einu ári. Það er engin smáfjárhæð sem hægt er að nota í breytingar og aðlögunarsamninga og kerfisbreytingu.