Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[14:57]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um frumvarp sem felur í sér breytingu á réttindaávinnslu og breytta framsetningu laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, mál sem ég styð og felur í sér mikilvægar umbætur og er liður í frekari endurskoðun laganna sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. En ég kem hingað ekki síður til þess að staðfesta hér að ábendingar sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom með við atkvæðagreiðslu við 2. umr. og fór yfir hér rétt áðan við 3. umr. verða teknar til skoðunar í hv. velferðarnefnd. Ákvæðið sem um ræðir tekur ekki efnislegum breytingum með frumvarpinu sem við greiðum atkvæði um hér og nú, en eftir að hafa hlustað á hv. þingmann tel ég mikilvægt að rýna ábendinguna óháð afgreiðslu þessa frumvarps, þó að ég geti ekki sagt til um það á þessum tímapunkti hver niðurstaðan verður.