154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:35]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að vísa til, að sporin hræði. Hræða sporin þegar ég færi lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs af höfuðborgarsvæðinu á Höfn? Eru það spor sem hræða? (Gripið fram í.) Er það spor sem hræða þegar ég er að opna starfsstöð Umhverfisstofnunar á Hvanneyri? Hver sagði að höfuðstöðvar nýrrar stofnunar yrðu á höfuðborgarsvæðinu? Hver hefur sagt það? Sporin hræða ekki á mínum tíma í ráðuneytinu. Það er skrifað eins mikið út í frumvarpinu og hægt er að flytja störf út á land þannig að ef hv. þingmaður ætlar að vinna gegn þessu frumvarpi og öðrum frumvörpum þá held ég að það verði erfitt fyrir hv. þingmann að útskýra það fyrir þeim umbjóðendum sínum í hans kjördæmi sem vilja fá störf úti á land. Hv. þingmaður finnur bara engin dæmi þess að sporin hræði í tilfelli mínu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, þvert á móti. Það var enginn á þinginu sem bað mig um þetta, ég bara gerði þetta og þetta er skrifað út eins og hægt er að skrifa þetta út í frumvarpinu. Við getum farið yfir hina ýmsu hagræðingu sem er ágætlega tilgreind í greinargerð og skýrslum og úttektum, þær eru margar, en síðan er alveg skýrt að það er markmiðið að færa störf út á land. Og ég er ekki bara að tala um það, ég hef framkvæmt það og meðan ég er ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála þá mun ég halda því áfram. Hv. þingmaður getur alveg treyst því. Það sagði enginn að höfuðstöðvarnar yrðu á höfuðborgarsvæðinu.