142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta vegna þess að mér þóttu orð falla hér áðan sem gáfu tilefni til þess að forseti slægi í það minnsta í bjöllu og bæði hv. þingmann um að gæta orða sinna. Það voru orð hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur þegar hún vændi þingmenn, og þá alla þingmenn, um að þeir hefðu eitthvað að fela og væru að huga að hagsmunum einhverra annarra en þjóðarinnar sem þeir sitja hér í umboði fyrir.

Þegar þingmenn fara fram með þessum hætti, virðulegur forseti, tel ég að hæstv. forseti hafi ástæðu til að slá í bjöllu og í það minnsta áminna þingmenn um að gæta orða sinna. Umræða á þessum nótum, um að hér sitji þingmenn sem gæti hagsmuna annarra en þjóðarinnar og þeirra umbjóðenda sem þeir eru kosnir af, og að þeir hafi eitthvað að fela, er ekki boðleg. Ef það kallar ekki á bjölluhljóm af hálfu hæstv. forseta þá er vart margt sem kallar á bjölluhljóm.