152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[17:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég er á svipuðu róli og komið hefur fram hér í andsvörum á undan. Það snýr að tímanum. Rökstuðningur málsins, eins og segir hér í kafla um tilefni og nauðsyn lagasetningar, er þessi: Þar sem allri óvissu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi hefur ekki verið eytt þykir nauðsynlegt að leggja til að bráðabirgðaheimildir umræddra laga verði framlengdar.

Fyrr má nú aldeilis fyrrvera. Ég skil alveg þá stefnumörkun, ef hún væri til staðar, að til framtíðar ætti að koma á því verklagi sem viðhaft hefur verið undanfarið rúmt ár. En það að ætla að taka allt kjörtímabilið hér um bil, því að lok árs 2024 er bara korter í kosningar — ef þessi ríkisstjórn höktir allan þann tíma og ef ekki verður boðað til kosninga í millitíðinni þá er þetta gríðarlega langur tími. Ég hef verið þeirrar skoðunar að allar Covid-aðgerðir, sérstaklega þær sem eru settar í búning bráðabirgðaaðgerða, eigi að vera til skamms tíma. Þótt ekki væri fyrir nema annað geld ég varhug við því að við förum að setja Covid-aðgerðir í búning sem ætlunin er að viðhafa í rúm þrjú ár. Við ætlum öll fyrir löngu að vera komin út úr þessum bráðaaðgerðum Covid-faraldursins á þeim tíma og ég held að það styttist óðum í þann tíma að almenn sátt verði um að snúa af þeirri braut sem við höfum verið á undanfarið. Hæstv. ráðherra, ég get alveg skilið rökstuðninginn, þetta er hluti af þeirri sviðsmynd sem við ætlum að horfa á til langs tíma, en ég skil það alls ekki að ætla að setja þessa bráðabirgðaaðgerð í kórónuföt og ætla að vera í þeim í rúm þrjú ár.