152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[21:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég gat ekki annað en blandað mér aðeins meira í þessa umræðu því að ég held einmitt að þetta sé virkilega skemmtilegt verkefni fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd að fjalla um, málið er spennandi. Mig langar samt að nefna að í svona málum finnst mér koma glöggt í ljós hvað væri gott að vera með fyrirkomulag sem margir þekkja úr Word-hugbúnaðinum og kallast á ensku „track changes“ eða að breytingarnar sjást, (Gripið fram í: Breytingarsagan.) breytingarsagan, vegna þess að hér erum við með frumvarp til breytinga á þrennum lögum og til að sjá heildarmyndina þarf að lesa þetta svolítið saman. Mér finnst þess vegna mikilvægt líka að það komi fram, ef einhver skyldi vera þarna úti og bara lesa þetta frumvarp og halda að þetta sé allur lagabálkurinn sem fjallar um fjarskipti og það að selja fjarskipti, en það er alls ekki rétt því að við erum með mikla lagabálka í gangi í dag. En þetta eru breytingar sem ég efast ekki um að eru mikilvægar.

Virðulegur forseti. Mér var orðið svo heitt í hamsi áðan því að við vorum að ræða um þjóðaröryggismál sem ég brenn fyrir og netöryggismál og ég var farin að punkta alls konar hluti hjá mér en svo áttaði ég mig á því að þetta væri kannski ekki beint um það en ég ætla samt að leyfa mér að renna aðeins yfir það af því að ég held að það sé mikilvægt að við tökum svona umræðu. Mér fannst koma ágætlega fram í samtali sem ég átti áðan við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að það er einmitt ekki aðalatriðið að þessir innviðir séu í eigu einkaaðila sem eru jafnvel ekki skráðir á Íslandi. Það skiptir öllu máli að lagaramminn sé skýr. Í því samhengi heyrðum við t.d. nýlega umræðu um hleranir Bandaríkjahers á dönskum fjarskiptalínum. Ég held að þar hafi eignarhald ekki skipt neinu máli, nema síður sé. Við höfum heyrt sögur af hótunum varðandi fjárfestingar í fjarskiptainnviðum í Færeyjum þar sem allt var í ríkisrekstri. Ég held því að það sé svo mikilvægt að taka það upp úr að við erum að fjalla um regluverk og mín sýn alla vega er sú að það sem skiptir öllu máli er að regluverk okkar sé í lagi. Hver á innviðina á ekki að skipta lykilmáli ef regluverkið er í lagi og eftirlitið með regluverkinu.

Við vorum að ræða hér áðan aðeins um þjóðaröryggi og sitt sýnist hverjum um það og sumir vilja meina að hér hafi ekkert verið gert síðan þjóðaröryggisstefnan var samþykkt. Ég get alveg tekið undir það að ég hefði viljað sjá jafnvel meira gerast en ég held að það sé ekki sanngjörn gagnrýni að segja að hér hafi ekkert gerst í fjögur ár. Þegar ég fór að rissa hjá mér í fljótu bragði þau mál sem ég hef komið nálægt þá minnist ég þess að í utanríkismálanefnd fengum við upplýsingar um Bjarnason-skýrsluna þar sem Birni Bjarnasyni var falið fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna að fara yfir norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála þar sem sérstaklega var talað um loftslagsmál, fjölþáttaógnir og netöryggi. Það hafa verið haldin hér málþing um þjóðaröryggismál og fjölþáttaógnir. Öryggis- og varnarmálaskrifstofan hefur núna með sérstökum deildarstjóra um fjölþáttaógnir verið að taka það fastari tökum. Og svo hitt, sem ég held að skipti líka máli vegna þess að allt frá því að ég fór að spyrja um þessi mál, sérstaklega netöryggi, eftir að ég kom inn á þing var það svolítið flókið hvað sá málaflokkur lá víða í stjórnkerfinu. Hér erum við með ráðherra vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarmála sem ber ábyrgð á netöryggismálum og ég veit ekki, kannski getum við í gamni kallað hana ráðherra internetsins, ég held að það skipti líka máli. Og þessar stjórnkerfisbreytingar eða stjórnarráðsbreytingar sem við erum að fara að fjalla um, vonandi á morgun, snúa einmitt m.a. að þessu, að því að straumlínulaga þetta og að ábyrgðin sé skýrari. Þannig að ég fagna því líka og vil meina að það sé einn liður í því að bæta utanumhald um netöryggismálin og fjarskiptin sem þetta frumvarp svo sannarlega fjallar um.

Ég hygg að þetta sé kannski fyrsta skrefið af mörgum sem við þurfum að taka. Við búum í síbreytilegum heimi og þetta er einmitt sá málaflokkur sem er stöðugt að breytast og ég held að ef einhverjum hefur dottið í hug að við gætum samþykkt þjóðaröryggisstefnu, sett á þjóðaröryggisráð og málið væri dautt, þá er það alls ekki svo. Þetta er það sem ríkisstjórnir og þjóðþing alls staðar í kringum okkur eru að fjalla um og við þurfum að sjálfsögðu að gera það líka. Ég held þess vegna að þó að við séum að horfa fram á breytingar og auðvitað get ég sagt að ég hefði viljað sjá þetta koma fram fyrr, ég get algerlega tekið undir þá gagnrýni og bara eðlilegt að við hefðum viljað enn meiri tíma til að fjalla um þetta, þá megum við samt ekki gleyma því að margt hefur verið gert og það má alls ekki tala með þeim hætti að hér sé allt í óefni og hér hafi ekki verið nein lög eða neinn rammi utan um. Slíkt hefur svo sannarlega verið til staðar. En hér ætlum við að gera enn betur og ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til dáða í umfjöllun um þetta og ekki síður í umfjöllun um fjarskiptalögin í heild sinni þegar málið kemur aftur fram.