Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

viðbrögð opinberra aðila við náttúruvá.

[14:25]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Tvímælalaust þarf — og ég tel að við séum í raun og veru að læra í hvert skipti sem eitthvað kemur upp á. Það er alveg ljóst að náttúruhamfaratrygging tryggir ekki allt tjón. Sumt tjón er tryggt hjá sjálfstæðum tryggingafélögum. Er fólk nægjanlega vel upplýst um það? er ein spurning sem má spyrja sig og þá hverjum beri að upplýsa. Við erum með þá stöðu, eins og ég nefndi hér áðan, að loftslagsbreytingar eiga eftir að hafa frekari áhrif á náttúruvá á Íslandi. Það er unnið að aðlögunarstefnu, sem er líka mikilvægur þáttur í þessu. Ég held að skynsamlegt væri, í ljósi þess þess verklags sem við höfum haft. Náttúruhamfaratrygging Íslands kemur að málum, sendir stjórnvöldum alltaf skýrslu eftir hvert skipti, ef svo má að orði komast. Málin eru sett í farveg hjá ráðuneytisstjórum sem vinna úr því sem út af stendur. Það getur verið alveg gríðarlega fjölbreytt. Stundum eru menningarminjar undir, stundum atvinnuhúsnæði, stundum er þetta eitthvert annað tjón. Við ættum að fara dálítið yfir þessa atburði sem hafa orðið og reynum að meta hvar þessi göt eru sem hv. þingmaður kemur hér inn á og ég tek undir með henni um mikilvægi þess.