155. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2024.

landlæknir og lýðheilsa og sjúkraskrár.

230. mál
[15:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Það kann að vera að það sé einhver misskilningur á milli okkar. Þegar ég er að tala um heimildir landlæknis er ég ekki að gagnrýna þær sjúkraskrár sem eru taldar hér upp. Þær mættu í sjálfu sér vera fleiri en færri. Það sem ég er að benda á er að landlæknir — miðað við þann skilning sem ég legg í frumvarpið, ég var orðinn aðeins rólegri en er orðinn órólegur aftur; kannski róast ég í vinnu velferðarnefndar með félaga Birni Leví Gunnarssyni, hv. þingmanni, en látum það liggja á milli hluta — er að fá heimild til þess að leggja sjálfur mat á hvaða gagna er krafist af viðkomandi veitanda heilbrigðisþjónustu sem fer síðan inn í þær heilbrigðisskrár sem eru nefndar hér í 1. gr. Þetta finnst mér vafasamt. Ég vara við því að embættismönnum sé færð þessi heimild með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég mun óska sérstaklega eftir því að sérfræðingar ráðuneytisins skýri þetta betur út fyrir mér þannig að við getum a.m.k. verið með sama skilning á málinu. En heimild landlæknis, eins og ég les frumvarpið, er of víðtæk og það þarf að þrengja hana með einhverjum hætti. Hver er lausnin? Ég er ekki með hana. Kannski finn ég hana með hjálp félaga minna í hv. velferðarnefnd.