135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[14:11]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar í fjarveru hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, en framhaldsnefndarálitið er að finna á þskj. 896.

Málinu var vísað aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. að beiðni hans og tilgangurinn var m.a. að afla nánari upplýsinga um fjóra þætti þessa frumvarps. Í fyrsta lagi um umfang og eðli upplýsingasöfnunar sem Varnarmálastofnun er ætlað að annast og einkum hvar mörk séu í frumvarpinu dregin milli mats á hernaðarlegum upplýsingum og hernaðarlegri hættu annars vegar og borgaralegri upplýsingamiðlun hins vegar. Því eins og bent hefur verið á telja ýmsir að hætt sé við að hér sé kominn vísir að leyniþjónustu án þess að það sé sagt berum orðum og styrkir reyndar ákvæðið um öryggisvottun starfsmanna þann grun.

Í öðru lagi um heildarkostnað við NATO-væðinguna til lengri tíma. Ég vil minna á að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og reyndar fleiri hafa talið kostnað sem er á fjárlögum þessa árs, 1,5 milljarðar kr., nógu háan í sjálfu sér en telja þó að sú fjárhæð eigi enn eftir að hækka og hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon m.a. spáð því að þetta gæti kostað okkur um 3,5 milljarða kr. eftir fimm ár og hafa þær spár ekki verið hraktar.

Í þriðja lagi var spurt í nefndinni um stöðu undirbúnings að reglugerðum sem fylgja eiga lögunum og loks um störf hættumatsnefndar og þarfagreiningu sem mörgum finnst reyndar að hefði átt að vera forsenda þessarar lagasetningar en ekki unnin eftir á.

Svo sem sjá má í framhaldsnefndarálitinu þótti hv. þingmanni árangur fundarins í utanríkismálanefnd sl. fimmtudag rýr um fyrsta atriðið, um aðskilnað milli hernaðarlegrar og borgaralegrar starfsemi, og virðist ljóst að það muni ekki nást fram og ekki heldur er orðið við beinum tillögum frá ríkislögreglustjóra um að styrkja ákvæði frumvarpsins að því leyti heldur er opnað á skörun milli hernaðarlegra og varnartengdra verkefna og ýmiss konar borgaralegrar starfsemi miklu meira en í veðri er látið vaka í frumvarpinu og greinargerð þess. En svo sterkt var reyndar tekið til orða í greinargerð með frumvarpinu að það var sagt snúast um nokkurs konar lagalegan eldvegg milli borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi.

Ég nefndi umsögn ríkislögreglustjóra sem fylgdi nefndaráliti á þskj. 866 frá minni hluta utanríkismálanefndar en þar er einmitt fjallað um þetta atriði. Þar segir, með leyfi forseta, m.a.:

„Eins og fyrr segir er lögunum ætlað að marka skil milli borgaralegra verkefna og hernaðarlegra. Því er ekki fullnægjandi að gera einungis grein fyrir takmörkunum sem eru á aðkomu borgaralegra stofnana að hernaðarlegri starfsemi heldur hlýtur einnig að þurfa að skýra hvaða takmörk eru á aðkomu hernaðarlegs liðsafla að borgaralegum verkefnum. Umræða á Vesturlöndum hefur fremur miðast við slíka takmörkun og aðkomu hers að löggæslu hers að löggæsluverkefnum innan lands takmörkuð og jafnvel bönnuð.“

Herra forseti. Þetta segir í umsögn ríkislögreglustjóra um frumvarpið. Þarna er sett fram krafa um hreinar línur milli borgaralegrar þjónustu annars vegar og hernaðar hins vegar. Ríkislögreglustjóri gerði svofellda tillögu um verkefni Varnarmálastofnunar og skilgreiningu, með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun annast úrvinnslu upplýsinga úr hermálalegum upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins og erlendra samstarfsaðila sem stofnunin hefur aðgang að. Stofnunin skal leitast við að skilgreina hernaðarógnir sem kunna að steðja að íslensku yfirráðasvæði. Hún skal einnig leitast við að skilgreina ógnir gegn íslenskum ríkisborgurum erlendis, m.a. vegna hernaðarumsvifa eða sambærilegs alvarlegs hættuástands.“

Hvernig var svo brugðist við þessum athugasemdum og beinu tillögum ríkislögreglustjóra sem voru við nokkru fleiri greinar en ég hef rakið. Aðeins breytingartillaga lögreglustjóra við 3. gr. frumvarpsins var tekin til greina en hún fjallar um hlutverk utanríkisráðherra í stefnumörkun og ábyrgð á alþjóðavettvangi. Sem sagt, að utanríkisráðherra beri ábyrgð á gerð hættumats á sviði varnarmála, um hernaðarlega ógn en ekki hættumat sem er gert alla jafna á sviði löggæslu og almannavarna m.a. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverka, stórslysa, náttúruhamfara, farsótta og tæknilegra bilana. Þetta var það eina, herra forseti, sem tekið var til greina af þessum beinu tillögum og athugasemdum lögreglustjórans.

Í framhaldsnefndaráliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar segir um þennan rugling, sem ég vil kalla, á milli borgaralegra verkefna annars vegar og hernaðar hins vegar, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum við 23. gr. er tekið fram að þær upplýsingar sem Varnarmálastofnun, með þessum hætti, safni og greini geti m.a. nýst til að meta hættu þar sem Íslendingar annast friðargæslu, þar sem Íslendingar annast þróunaraðstoð og jafnvel til að greina hættur þar sem búast má við að íslenskir ríkisborgarar séu á ferð sem ferðamenn.

Er þá nærtækt að spyrja hvernig eigi að haga tengslum eða afmörkun þessa þáttar upplýsingasöfnunar og greiningar starfsemi og hins vegar þess sem er borgaralegs eðlis og fer fram í utanríkisþjónustunni og utanríkisráðuneyti eða annars staðar á vegum lögreglu, í gegnum lögreglusamstarf eða eftir öðrum leiðum.“

Ég get ekki stillt mig um að minna á, inni í þessari miðri tilvitnun í framhaldsnefndarálitið, skýrslu utanríkisráðherra sem hér var til umræðu í síðustu viku þar sem nokkuð var fjallað um borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins sem þar er kölluð þjónustutrygging sem hver Íslendingur fæðist inn í. Þar segir um hana m.a. að borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins gæti hagsmuna íslenskra ríkisborgara á erlendri grund og að öryggi Íslendinga erlendis falli undir starfssvið borgaraþjónustunnar sem fylgist grannt með áfangi mála á óeirða- eða hamfarasvæðum.

Herra forseti. Ég er að lesa upp úr skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál þar sem verið er að fjalla um borgaraleg verkefni en hér er nákvæmlega verið að lýsa því sama, sömu verkefnum og er að finna í frumvarpinu um Varnarmálastofnun, um varnarmálalög, og enginn greinarmunur er gerður á frá mati á hernaðarhættu. Ég held áfram að lesa úr framhaldsnefndaráliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um þetta en hann segir, með leyfi forseta:

„Undirritaður telur þau svör sem fram komu á fundinum ófullnægjandi og þótt reglugerðarheimild sé að finna í viðkomandi grein [þ.e. 23. gr. frumvarpsins] þar sem ráðherra eigi að kveða nánar á um tilhögun þessara mála var engar upplýsingar hægt að veita um hvernig því yrði háttað enda undirbúningur að setningu reglugerða ekki hafinn samkvæmt því sem upplýst var á fundinum.“

Ég get ekki stillt mig, herra forseti, í lok umfjöllunar um þetta atriði, þennan aðskilnað á þessu stigi, að benda á fylgiskjal IV sem er minnisblað frá utanríkisráðuneytinu til utanríkismálanefndar, dagsett 11. mars 2004, þar sem brugðist var við umsögn ríkislögreglustjóra um þetta frumvarp. Ég hef hér áður rakið í hverju hún fólst, krafan um hreinan aðskilnað, hreinar línur á milli borgaralegra verkefna sem lúta að öryggi borgaranna og hernaðar hins vegar. Í þessu minnisblaði segir svo um þessi efni, með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun telst samkvæmt framansögðu borgaraleg stofnun sem mun, að meginstefnu til, sinna varnartengdum verkefnum sem teljast ekki borgaraleg í eðli sínu.“

Skyldi nokkur skilja hvað hér er átt við? (MÁ: Þetta er ekki her.) Þetta er ekki her, segir hv. þm. Mörður Árnason. Nei, Ísland ætlar ekki að reka her samkvæmt þessu frumvarpi, en Ísland hefur tekið að sér að vera hlekkur í hernaðarkeðju NATO og reka hernaðarstarfsemi fyrir gríðarlegt fé eins og ég mun nú nánar koma að.

Það eru einmitt auknu útgjöldin, 1.500 millj. kr. á fjárlögum þessa árs, og verða sennilega vaxandi eftir því sem fram líður. Um það atriði, heildarkostnað við þessa NATO-væðingu og frekari þróun kostnaðar við þetta á næstu árum fékkst ekki upplýst á fundi utanríkismálanefndar eins og fram kemur í framhaldsnefndaráliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Þó er ljóst að það mun verða hlutskipti Íslendinga að borga og standa undir kostnaði við rekstur af þeim mannvirkjum sem NATO ákveður að skuli rekin hér á landi í hvert sinn. Í framhaldsnefndarálitinu segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Litlar viðbótarupplýsingar komu þar fram en rétt er þó að taka fram og undirstrika að svo virðist sem staða Íslands sé sú að NATO tekur eftir atvikum í samráði við eða á grundvelli samkomulags við Íslendinga, ef slíkt næst, ákvarðanir um hvað af mannvirkjum í þess eigu á Keflavíkurflugvelli skuli rekið áfram en Íslendingar greiða þá kostnaðinn, nema um annað semjist sérstaklega, enda grundvallarreglan sú að mannvirkjasjóður NATO borgar stofnkostnað en það ríki þar sem mannvirkin eru rekstrarkostnað og viðhald nema þá í undantekningartilvikum. Með öðrum orðum virðist vera í hendi NATO óútfyllt ávísun eða vald til að senda reikninginn á íslenska skattborgara gegnum utanríkisráðuneytið og Varnarmálastofnun.“

Bent hefur verið á að með vaxandi kostnaði, ég tala nú ekki um ef hann nálgast það sem líklegt þykir eftir fimm ár, 3,5 milljarða, þá er hann orðinn býsna nærri því marki sem NATO setur aðildarþjóðum sínum og hvetur til þess að þær setji um 2% af þjóðartekjum sínum í hernað. Það skyldi þó ekki vera markmiðið, herra forseti, að Íslendingar, sem á tyllidögum gjarnan vilja líta á sig sem friðelskandi og herlausa þjóð, ætli sér ekki að vera eftirbátar annarra NATO-þjóða í þessu þegar kemur að útgjöldum til hernaðar þegar þeir eru einu sinni komnir sem þessi hlekkur inn í hernaðarkeðjuna?

Ég vil vekja athygli á góðum dreifimiðum sem ungir vinstri grænir dreifðu um borgina í tilefni þessa frumvarps. Þar kemur m.a. fram, herra forseti, að fyrir 1.500 millj. kr. væri hægt að veita 1.500 börnum leikskólapláss eða fjármagna þrjá nýja framhaldsskóla. Ung vinstri græn benda líka á að í þessum fjármunum, 1.500 millj., er ekki meðtalinn kostnaðurinn við heræfingar hér á landi sem allar verða á kostnað íslensku þjóðarinnar, svokallaðs gistiríkis, og kostuðu síðast 150 þús. kr. á hvern hermann sem í þeim tók þátt.

Ég nefndi tvö atriði önnur sem fjallað var um að ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á fundi í utanríkismálanefnd sl. fimmtudag og í framhaldsnefndarálitinu kemur fram að þar var upplýst að undirbúningur að reglugerðarsetningu væri ekki hafinn þannig að engar upplýsingar lágu fyrir um þau mál þegar málið virðist komið á stig lokaumfjöllunar á Alþingi. Í nefndinni kom einnig fram spurning um störf hættumatsnefndar og hvort þess væri að vænta að niðurstöður úr því mati kynnu að leiða til þess að það þyrfti að gera lagabreytingar eða taka nýjar ákvarðanir um breytta tilhögun mála. Svörin við því eru að engar stefnumótandi ákvarðanir liggja fyrir vegna þess að gerð hættumatsins og þarfagreiningarinnar að þessu leyti er á frumstigi.

Í nefndarálitinu kemur fram að sá sem það undirritar, minnihlutaframhaldsnefndarálitið, hafi þráfaldlega gagnrýnt að með þessu móti sé byrjað á öfugum enda og að engar upplýsingar hafi komið fram í nefndinni sem hrekja að hans mati þá fullyrðingu.

Herra forseti. Ég hef fjallað nokkuð um kostnaðinn og hinn óútfyllta tékka sem stendur til að afhenda NATO á ríkissjóð Íslands og um hina allsendis ófullnægjandi aðgreiningu sem er á milli borgaralegra öryggisþátta annars vegar og hernaðarlegra hins vegar í þessu frumvarpi þrátt fyrir yfirlýsingar um annað en eins og ég sagði voru þessi tvö atriði sérstaklega tekin til athugunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. Kjarni málsins er þó sá að hér er, eins og skýrt kom fram við 2. umr. málsins, á ferðinni lagarammi um hernað, um heræfingar og um hernaðarútgjöld, um hervæðingu íslenskra fjárlaga og um NATO-væðingu íslenskrar utanríkis- og öryggismálastefnu og það eins þótt frumvarpið heiti frumvarp til varnarmálalaga. Rifjast þá upp fyrir manni orðhengilshátturinn um herliðið á Miðnesheiði annars vegar og svo varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þetta er auðvitað ekkert annað en ímyndarsköpun. Það er verið að búa til umbúðir utan um það sama, þ.e. hernað og hernaðarhyggju.

Með þessu lagafrumvarpi er Ísland endanlega bundið á klafa NATO fastar en nokkru sinni frá upphafi þeirrar óheillavegferðar 30. mars 1949. Það sem við vinstri græn höfum kosið að kalla NATO-væðingu kemur fram í mörgum atriðum m.a. eins og ég hef nefnt hér, í lögbindingu erlendra heræfinga á vegum NATO á kostnað Íslendinga, í óútfylltum tékka á ríkissjóð Íslands til að standa straum af hernaðarbrölti NATO hér á landi, í aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarlegu starfi bandalagsins, svo sem með setu fulltrúa í herstjórnarmiðstöðvum NATO. Og til marks um, herra forseti, að þetta er allt gert fyrir NATO en ekki íslenska öryggishagsmuni er það að engin niðurstaða hefur enn fengist um hvaða ógn eða hætta það er sem okkur stafar svo af öðrum ríkjum og sem þessi varnarmálalög eiga að sporna gegn.

Í fyrsta skipti í sögunni hafa nú verið tekin inn á íslensk fjárlög og fjáraukalög stórfelld útgjöld til hernaðarmála sem tengjast veru Íslands í þessu hernaðarbandalagi NATO, heræfingum og stríðsleikjabrölti. Allt er þetta, herra forseti, gert eins og ég hef komið ítrekað að án þess að nokkur greining hafi farið fram á stöðu Íslands og þörfum og allt án nokkurrar undangenginnar umræðu og lýðræðislegrar umfjöllunar. Allt er þetta gert til að verja okkur á friðartímum vegna þess, herra forseti, að þegar og ef til átaka kæmi þá fellur allt í sama farið, bandaríski herinn kemur bara aftur.

Ég hlýt að minna á það að í þessari NATO-væðingu erum við að binda fast trúss okkar við hið nýja NATO sem hefur reyndar horfið frá fyrri skilgreiningum og markmiðum um að vera svokallað varnarbandalag á landsvæði aðildarríkjanna og til þess að vera árásaraðili eða gerandi jafnvel í fjarlægum heimsálfum. NATO stóð sjálft í fyrsta sinn fyrir beinum hernaðaraðgerðum með loftárásum á Júgóslavíu og tók svo við stríðsrekstrinum í Afganistan af Bandaríkjamönnum og Bretum á árinu 2004, enda voru þeir þá komnir annað, inn í Írak sem aldrei skyldi verið hafa.

Herra forseti. Á nýafstöðnum fundi 2. apríl í Búkarest blés þetta nýja NATO svo nýju lífi í vígbúnaðarkapphlaupið sem margir töldu og vonuðu að mundi ljúka með hruni Sovétríkjanna á sínum tíma. Ábyrgð NATO á þessari endurlífgun er mikil og Íslendinga reyndar líka, en þeir greiddu ekki atkvæði og stóðu ekki gegn uppsetningu eldflaugavarnakerfis í Evrópu sem m.a. mun kalla á uppsetningu eldflaugaskotpalla í Póllandi og radarstöðva í Tékklandi — þvert ofan í vilja tékknesku þjóðarinnar og þvert ofan í vilja ýmissa ríkja í Evrópu sem þarna eiga hagsmuna að gæta.

Herra forseti. Hverju á að verjast, hverjum á að verjast? Ekki hefur enn verið kannað hver er svokölluð varnarþörf Íslendinga, hver óvinurinn gæti verið og hvernig væri þá best að bregðast við. Nei, skipulagið er klárt, skal lögbundið, fjárhirslur opnaðar upp á gátt, og á sama tíma er nefnd að hefja störf, nefnd sem á einmitt að meta hver hættan er og hvernig best er að bregðast við. Hvað skyldi það nú vera sem við ættum helst að varast? Ætli það sé ekki eins og kemur fram í umsögn ríkislögreglustjóra og í nefndaráliti hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar við 2. umr. að það séu helst öryggisatriði sem lúta að náttúruvá og mengun, að það sé sem sagt viðbúnaður sem lýtur að því að mæta eldgosum, jarðskjálftum, farsóttum, veðurhamförum og öðrum slíkum þáttum sem eru nætækari en sú ímyndaða utanaðkomandi hernaðarógn sem í reynd ætti að vera eina mögulega réttlæting þess að taka inn á íslensku fjárlögin milljarðaútgjöld af þessu tagi til hernaðarverkefna. Ég ítreka að enginn hefur bent á þann óvin sem menn ætla að verja sig gegn.

Ég get ekki stillt mig, herra forseti, um að vitna orðrétt í það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér við 2. umræðu:

„Ætli það sé ekki þannig að hún Katla gamla sé meiri ógn við öryggi okkar en þessar bábiljur?“

Undir þetta held ég að margir geti tekið.

Við vinstri græn mótmælum þessari vitleysu, herra forseti. Við teljum nær að nota þessa fjármuni gagngert í annað nærtækara í því skyni að tryggja öryggi, vellíðan og frið í landinu og gæta þannig hagsmuna hinna almennu borgara, í löggæslu, í landhelgisgæslu, í almannavarnir, í björgunarsveit, o.s.frv. sem mun gagnast okkur miklu betur. Það eru tillögur okkar í þessum efnum sem lúta að öryggi borgaranna á Íslandi.

Það er virkilega ámælisvert þegar ráðherrar, hver á fætur öðrum, kvarta undan útgjaldaþenslu á öllum sviðum, þegar við stöndum frammi fyrir atgervisflótta og skorti á starfsmönnum í löggæslu og þegar peningaleysi er notað sem afsökun fyrir að grafa undan vel skipulögðu og árangursríku löggæslustarfi við stærstu flughöfn landsins að þá skuli stjórnmálamenn tilbúnir til að ausa fé í gæluverkefni eins og Varnarmálastofnun, kostnaðarsamt gæluverkefni sem á fátt skylt við almenna íslenska öryggishagsmuni eins og til að mynda sést á því fánýti að halda hér uppi erlendum herjum í tilgangsleysi á friðartímum.

Herra forseti. Eftir 30. september 2006, þegar bandaríski herinn yfirgaf landið eftir 55 ár, gafst langþráð tækifæri til þess að móta friðsamlega og sjálfstæða utanríkisstefnu Íslendinga. Þá gafst líka færi á að leggja grunn að meiri samstöðu og sátt um utanríkis- og öryggismálastefnu en eins og allir vita hefur þjóðin verið klofin í herðar niður vegna afstöðunnar til hersins allan lýðveldistímann. En það var ekki á dagskrá hjá þeim sem nú móta stefnu Íslands í utanríkismálum. Öll loforð sem gefin voru í framhaldi af brottför hersins um pólitískt samráð voru endanlega svikin með framlagningu þessa frumvarps.

Í september 2006, þegar sýnt var að herinn væri að fara, lofaði þáverandi ríkisstjórn vönduðu þverpólitísku samstarfi allra flokka um framhald mála og var sambærilegu fyrirheiti komið inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að loknum kosningum á síðasta ári. Efndirnar létu þó á sér standa og þær litu í rauninni ekki dagsins ljós fyrr en daginn áður en þetta frumvarp kom til 2. umr. hér í þinginu. Og hverjar voru þær? Jú, fundur formanna stjórnmálaflokkanna tvisvar á ári, það er samráðið. Eftir að búið er að leggja línurnar um það sem hér er kallað varnarmálalög og er ný stefna í utanríkis- og öryggismálum Íslendinga á að byrja á því að viðhafa samráð með þeim hætti að halda tvo fundi á ári.

Ég vil bæta því við að það skortir algerlega á að lýðræðisleg umræða og eðlileg grunnvinna hafi áður verið unnin eins og ég hef hér nefnt í formi könnunar á þörfum og hagsmunum Íslendinga í þessum efnum. (MÁ: Það er verið að því.) Það er verið að því, segir hv. þm. Mörður Árnason. Það má kannski segja að betra sé seint en aldrei en ég hygg að þingmaðurinn geti verið mér sammála um að þar sé byrjað á öfugum enda. Ætli það sé nú ekki nær að leggja fyrst niður þau verkefni sem fara á í áður en farið er að skipuleggja viðbrögðin og ausa út fjármunum í það?

Við höfum kallað þetta NATO-væðingu og það kom fram hér við 2. umr. og fór fyrir brjóstið á einhverjum þingmönnum. Hvað meinum við eiginlega með þessari NATO-væðingu? Í fyrsta lagi eru með frumvarpinu bundnar í lög reglubundnar heræfingar NATO-ríkja hér á landi, svokallað loftrýmiseftirlit, hinn rándýri rekstur hins hernaðarlega hluta ratsjárkerfisins og allt þetta viðamikla og dýra umstang sem við eigum að sinna á svokölluðum friðartímum. Komi til ófriðarástands, eins og ég hef áður sagt, verður kallað á gamla herverndarsamninginn og treyst á hann við Bandaríkin.

Í öðru lagi er hér verið að búa til nýja Varnarmálastofnun sem í mínum huga er ekkert annað en hermálastofnun, sem á að verða einhvers konar blanda af útibúi NATO hér á landi og íslenskri hermálastofnun. Hér er verið að bæta í báknið án þess að sjálfstæðismenn æmti eða skræmti eins og bent hefur verið á og án þess að vitað sé hvernig útgjöldin muni þróast. Eðli þessarar nýju stofnunar er í hróplegu ósamræmi við ítrekaðar yfirlýsingar um að Íslendingar séu og ætli sér að vera herlaus og friðelskandi þjóð.

Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir, eins og ég hef bent á, stórauknu samstarfi Íslendinga í NATO og í reynd endanlegri inngöngu í hernaðarbandalagið. Ég hlýt að rifja upp að Ísland gekk á sínum tíma í NATO með fyrirvörum um að hér skyldi ekki vera her á friðartímum og að aldrei væri ætlunin að koma upp íslenskum her. Þátttaka okkar í NATO hefur í rauninni byggst á þeim fyrirvörum. Ísland tók lengst af ekki þátt í neinu hermálasamstarfi NATO, ekki í kjarnorkuvígbúnaðinum, og greiddi ekki í mannvirkjasjóð NATO. Þar með var Ísland í raun afskiptalítið um málefni NATO að þessu leyti. Veran í NATO var réttlætt með því að ef á okkur yrði ráðist mundi NATO koma okkur til hjálpar. Og jú, við létum land og bíó og háskóla undir NATO-fundi.

Með þessu frumvarpi og tengdum aðgerðum og ákvörðunum sem teknar hafa verið á undanförnum missirum er lokaskrefið stigið inn í NATO alla leið til fullgildrar og virkrar þátttöku í öllu starfi hernaðarbandalagsins. Ísland situr eftir það í hermálanefndinni, borgar í mannvirkjasjóðinn frá og með þessu ári, fer að taka við leyndarupplýsingum NATO í sérstöku leyndarherbergi í utanríkisráðuneytinu og merki frá hernaðarratsjám á Íslandi eiga að renna inn í NATO-kerfið í framtíðinni og þannig mætti áfram telja.

Herra forseti. Til er ein og aðeins ein leið út úr þeim vítahring vígvæðingar sem við erum nú illu heilli að festast í sem aldrei fyrr. Það er hnattræn afvopnun þar sem hver þjóð leggur sitt af mörkum. Með frumvarpinu er óumdeilanlega farið í þveröfuga átt og í stað þess að leggja lóð á skálar afvopnunar í heiminum er Ísland nú að taka þátt í vígbúnaðarkapphlaupinu með virkum hætti, miklu virkari en nokkru sinni fyrr.

Herra forseti. Með vísan til ítarlegs rökstuðnings, sem kom fram í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar við 2. umr., og með vísan til þeirra viðbótarupplýsinga sem dregnar eru fram í framhaldsnefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiða atkvæði gegn þessum ólögum.