149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:42]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að hafa langt mál um þetta. Það er ósköp einfaldlega nóg að vísa til umfjöllunar hjá þeim ágætu höfundum sem hér hafa verið margnefndir um 8. gr. reglugerðar 713, um 14. gr. — báðar reglugerðirnar eru frá 2009. Þeir vekja sömuleiðis sérstaklega máls á 37. gr. í tilskipun 72 þar sem fjallað er um valdheimildir þessarar nýju stofnunar sem tíðast er í daglegu máli kölluð ACER. Þetta liggur fyrir í gögnum málsins og ég þarf ekkert annað en vísa til þess.

Ég tel, herra forseti, að okkur beri skylda til að stíga gætilega til jarðar þegar fyrir liggur álitsgerð eins og sú sem hér liggur fyrir frá Stefáni Má og Friðrik Árna. (Forseti hringir.) Við alþingismenn hljótum að vilja — og okkur ber líka skylda til þess — túlka allan vafa stjórnarskránni í hag, ekki síst þegar höfundarnir tala um verulegan vafa. (PállM: Lastu ekki niðurstöðuna?)

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir aftur á að halda ræðutíma og mun í framhaldinu fara að verða svolítið þyngri með hamarinn sem þýðir að þeir sem heima sitja verða fyrir verulegum óþægindum ef þingmenn fara langt fram yfir tímann.)