Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Við skulum tala um gervigreind. Fyrir tveimur árum gaf forsætisráðuneytið út stefnu um gervigreind fyrir Ísland. Þar segir að skilgreina megi hugtakið á einfaldan máta með því að segja að það sé leið til að fá vélar, í víðum skilningi, til að vinna mannanna verk. Þar er einnig gerð grein fyrir því að gervigreindin sé farin að taka ákvarðanir sem áður hafi einungis verið á færi mannanna, svo sem við akstur ökutækja, sjúkdómsgreiningar og ákvörðun meðferðarúrræða, á verðbréfamörkuðum og við lánshæfismat svo að fáein dæmi séu nefnd.

Notkun gervigreindar vekur líka áleitnar spurningar og við þurfum að nota hana á ábyrgan hátt. Tækifærin sem notkun gervigreindar skapar þurfa að standa öllum til boða. Það má segja að við séum í ágætri stöðu hvað það varðar hér á landi.

Ég átti þess kost að sækja 67. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York fyrr í þessum mánuði. Þar var aðalumfjöllunarefnið tækniþróun og staða kvenna og stúlkna með tilliti til hennar og tækniframfara og þar var gervigreind auðvitað líka til umræðu. Það er mjög mikilvægt að við skoðum þessi málefni frá sjónarhóli kvenna og kvenfrelsis því að það er margt að varast í þessari þróun. Gervigreindin verður að geta nýst fyrir alla, konur, karla og kvár.

Gervigreindin endurskapar heiminn eins og hann er. Hún endurspeglar með öðrum orðum fordómana og kvenhatrið sem fyrirfinnst á netinu og líka valdaójafnvægið í heiminum. Hún hefur ekki sjálfstæðan vilja, hún hefur ekki frumlega hugsun og hún hefur ekki siðvit, það er einungis á færi okkar, fólksins sem byggjum þessa jörð. En það er mjög mikilvægt, forseti, að byggja siðferðislegan grundvöll undir notkun gervigreindar jafnt í þessu samfélagi sem og í öllum öðrum.