Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

málefni innflytjenda og vinnumarkaðsaðgerðir.

782. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í máli mínu kom fram, og stendur skýrum stöfum í nefndarálitinu okkar í minni hlutanum, að þetta byrjaði ágætlega með bjartsýni og tilhlökkun hjá starfsfólki. Síðan datt samráðið niður. Þetta er allt saman útlistað í skýrslum sem hafa verið sendar ráðuneytinu. Við heyrðum það sama og vitum að það er ekki búið að græja alla ferla innan Vinnumálastofnunar til að taka við þessum lögbundnu hlutverkum. Líkt og stendur í skýrslunni um sameiningu ríkisstofnana; ef undirbúningi að góðum verkefnum er ábótavant þá er hætta á því að góður ásetningur verði að engu. Ég hef áhyggjur af því. Setjum sem svo að allt sé í góðu lagi og undirbúningur miklu meiri heldur en þó kom fram á fundum nefndarinnar, frá Vinnumálastofnun í það minnsta. Þá ætti ekki að vera nein hætta í því fólgin að meta niðurstöðuna. Tökum út ferlið og lærum af því þegar kemur að næstu sameiningu. Þetta er ekki fyrsta sameiningin og ekki heldur sú síðasta. Í samrunaáætlun sem mælt er með að farið sé eftir, í þessu stefnuplaggi sem fjármálaráðuneytið hefur lagt fram fyrir önnur ráðuneyti og stofnanir til að fara eftir, er einmitt gert ráð fyrir því að ekki sé gengið frá verkinu án þess að gera á því úttekt og meta hvort markmiðum hafi verið náð.