154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[13:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er kannski meira umhugað um samvinnustefnuna sem félagsmaður í samvinnufélagi um áratugaskeið. Ég er bara að reyna að hafa góð áhrif á þennan flokk sem hefur farið villur vegar, að menn líti til upprunans og setji samvinnuhugsjónina og siðræn gildi í forgang í stað þess, og nú vil ég kannski orða þetta pent, að vera hér stöðugt að þjónka einhverjum kaupahéðnum og bröskurum og koma á einokun; ég tel að það geti gerst með þessu frumvarpi. Þetta er auðvitað sagt af ákveðinni umhyggju og af væntumþykju fyrir Framsóknarflokknum. Ég held að það væri best fyrir þann ágæta flokk að leita upprunans. Auðvitað þarf hann að fara svolítið langt; alla vega þrjá áratugi aftur í tímann, myndi ég segja. Auðvitað viljum við gera þjóðinni gagn og ég legg þessi orð í belg til þess og auðvitað vonast ég til að þessu farnist vel. En sporin hræða.