Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[20:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir sína framsögu. Við ræðum hér fjáraukalög ársins 2022 og ég vona að formaður fjárlaganefndar erfi það ekki við mig þótt ég kannski fá að spyrja hana aðeins á almennari nótum um málefni sem sannarlega varða fjárveitingar árið 2022. Nú er það þannig að í fjárlagafrumvarpi ársins sem við samþykktum hér á Alþingi í desember í fyrra kom mjög skýrt fram að atvinnuleysisbætur yrðu hækkaðar um 4,6%, um sömu prósentutölu og greiðslur almannatrygginga. Það er hægt að sjá þetta á bls. 134 í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Alþingi samþykkti þetta frumvarp en einhverra hluta vegna kaus hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, ráðherra Vinstri grænna, að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar aðeins um 2% en ekki 4,6% þegar hann setti reglugerð nokkrum dögum seinna.

Ég vil spyrja hv. þingmann og formann fjárlaganefndar: Á Alþingi ekki að geta treyst því þegar svona frumvarp er lagt fram, hvort sem það eru fjárlög eða fjáraukalög, með ákveðnum forsendum um það hvernig verðlag og bætur þróast, að ráðherrar hagi sínum stjórnarframkvæmdum í samræmi við þessar forsendur og að ef þeir gera það ekki þá fari a.m.k. einhver umræða fram um það hér á Alþingi? Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það verði að leiðrétta þetta með reglugerðarbreytingu? Og ef svo er, gæti það kallað á önnur fjáraukalög í haust?