Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta heitir að nýta sér ferðina, myndi ég nú segja alveg hreint, því að hér erum við auðvitað að fjalla um eitthvað allt annað heldur en það sem við vorum að gera (JPJ: Fjárlög ársins 2022.) í fjárlögum ársins 2022. Ég vil bara segja að það er mikilvægt að við ræðum akkúrat það sem við erum hér að fást við vegna þess að ég tel að það sé mikilvægt að við tölum um það. Sannarlega er fyrst og fremst verið að flytja til fjármuni sem við vorum þegar búin að samþykkja.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort Stjórnarráðið og ráðherrar eigi ekki að fara eftir því sem þingið samþykkir — jú, þeir eiga að gera það. Þeir eiga að gera það og ég treysti því nú bara að hv. þingmaður hafi sent um þetta fyrirspurn til hæstv. ráðherra og vænti þá svara við því. Ég ætla svo sem ekki að tjá mig sérstaklega um það hvers vegna þetta var gert eða ekki en ég treysti því bara að hann fái svör við þeirri spurningu von bráðar. Síðar, þegar svar við þeirri spurningu liggur fyrir, getum við tekið afstöðu til þess hvort þessu þurfi að breyta, hvort þetta er eitthvað sem þarf að koma fram í fjáraukalögum eða hvort ráðherrann leysir þetta hreinlega sjálfur í sínum fjárlagatillögum fyrir næsta þing.