Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 90. fundur,  14. júní 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar kærlega fyrir sín ágætu svör. Ég ætla að halda áfram að nota ferðina blygðunarlaust og geta þess hér að ég er vissulega búinn að leggja fram fyrirspurn um þetta mál. Fyrirspurnin er í sex liðum og hljóðar svo:

1. Hvers vegna hækkaði ráðherra grunnatvinnuleysisbætur um 2% með reglugerð nr. 1657/2021, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, 29. desember 2021 en ekki um 4,6% eins og fram kom á bls. 134 í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 að yrði gert?

2. Hafði ráðherra samráð við aðra ráðherra í ríkisstjórn þegar hann ákvað að hækka grunnatvinnuleysisbætur minna en gert var ráð fyrir við samþykkt fjárlaga fyrir árið 2022?

3. Hversu mjög hafa grunnatvinnuleysisbætur rýrnað að raunvirði í ár, sundurliðað eftir mánuðum? Það er mikilvægt að fá þetta fram.

4. Hversu mjög munu grunnatvinnuleysisbætur rýrna að raunvirði til ársloka 2022 ef bæturnar verða ekki hækkaðar, sundurliðað eftir mánuðum? Auðvitað vona ég bara að ráðherra bregðist skjótt við og leiðrétti þetta, hækki bæturnar.

5. Hvers vegna hækkaði ráðherra ekki grunnatvinnuleysisbætur um sömu prósentutölu og bætur almannatrygginga samhliða mótvægisaðgerðum vegna verðbólgu sem samþykktar voru á Alþingi 24. maí 2022? Og hér gæti ráðherra í raun notað ferðina. Hann gæti brugðist við og ákveðið að hækka bæturnar til samræmis við það sem bætur almannatryggingar hækkuðu um og um leið leiðrétt þá skekkju sem ég gat um hér áðan.

6. Telur ráðherra að fólk á grunnatvinnuleysisbótum þoli betur verðhækkanir en hópar sem komið var til móts við með beinum hætti með áðurnefndum lögum?

Nú held ég að ég sé búinn að nota ferðina til þess að ýtrasta.