Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

lögheimili og aðsetur.

895. mál
[16:50]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Þetta mál vakti athygli mína þar sem líkt og fáum dylst eru mál er varða heimilisofbeldi mér ákaflega hugleikin og þær gríðarlegu úrbætur sem við þurfum að gera víða í kerfinu til þess að tryggja öryggi fólks í slíkum aðstæðum.

Nú renndi ég yfir frumvarpið, ég játa að ég var svo sem að gera það í fyrsta skipti núna rétt áðan og vona kannski bara að eitthvað hafi farið fram hjá mér, en ég fæ ekki séð að það sé neins staðar skilgreint eða útskýrt í frumvarpinu hvað átt er við með heimilisofbeldi. Nú er skilgreining á hugtakinu t.d. í hegningarlögum þar sem það er sannarlega refsivert, þó að það hafi verið gert óþarflega nýlega. Lítur hæstv. ráðherra svo á að það þurfi að vera fallinn dómur um slíkt ofbeldi? Er nóg að fyrir hendi sé lögreglutilkynning? Er nóg að einstaklingur hafi greint frá slíku ofbeldi? Þetta er heldur ekki skýrt nánar í greinargerð og því er fyrsta spurningin um hvar þröskuldurinn liggur.

Í greinargerð sýnist mér ætlunin vera sú að setja þröskuldinn svolítið hátt og að það þurfi að fara fram ákveðið hættumat hjá lögreglunni á því hvort einstaklingurinn sé í hættu. Einstaklingur sem sætir heimilisofbeldi fær í raun ekki að leyna lögheimili sínu nema lögreglan meti það sem svo að viðkomandi sé í hættu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þröskuldurinn sé þó settur svona hátt. Hvað mælir í rauninni gegn því að einstaklingi sem sjálfur telur sig í hættu sé trúað um það mat sitt og að markið sé einfaldlega sett þar?