145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að skoða greinargerðina með frumvarpinu á bls. 20 og 21. Þar er verið að reyna að meta hver ávinningurinn verður fjárhagslega af sameiningu þessara stofnana. Hann er nú reyndar ekki mikill, talað er um að hann sé 4%. Það þarf ekki að vera óeðlilegt að hann sé ekki meiri.

Það sem mér finnst óþægilegt, kannski eftir að hafa fylgst með sameiningu Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar, að ég sé ekki alveg, alla vega ekki eins og staðan er í dag, að þar sé mikil hagræðing í gangi.

En mér finnst þetta heldur loðið og ég velti fyrir mér hvort gerð hafi verið einhver ítarleg samrunaáætlun. Við verðum þá væntanlega að kalla eftir henni. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd er það okkar hlutverk að fylgjast með því að þetta sé allt gert eins faglega og hægt er. Ef verið er að nota það sem rök að fjárhagslegur ávinningur verði af sameiningunni verður auðvitað að vera einhver fjárhagslegur ávinningur. Þá hlýtur að vera hægt að reikna hann ítarlegar út en mér finnst gert hér vegna þess að þetta er ekki sérstaklega flókin starfsemi eða margir óvissuþættir sem spila hér inn í.

Vissulega er talað um uppsagnarrétt starfsmanna. Gera má ráð fyrir því að einhverjir hætti störfum og fái einhverja starfslokasamninga, en ég hefði viljað sjá þetta gert miklu ítarlegar og mun kalla eftir því.

Hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því hvort að þetta sé nóg, 4% hagræðing? Hér er um að ræða rekstur stofnana sem er samanlagt vel yfir 1 milljarð. Þá finnast mér 4% ekki mikill fjárhagslegur ávinningur, ef ég á vera alveg heiðarleg.