149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Umrót í samfélaginu er oft ógnvekjandi. Fólk bregst við með ýmsum hætti þegar það missir vinnuna, húsnæði sitt eða annað sem það reiðir sig á. Það hefur verið til fyrirmyndar að sjá skipulagið sem hefur sprottið upp á Suðurnesjum eftir fall WOW. Almenningur hefur því miður vanist því að þurfa að bregðast við mjög vondum aðstæðum en það á enginn að þurfa að lifa við slíka reynslu.

Í Reykjanesbæ er að finna annan hóp, stóran hóp, sem má sín lítils í íslensku samfélagi. Flóttamenn hafa þurft að flýja hrikalegar aðstæður út hið óþekkta í leit að góðu lífi. Þegar þeir komast hingað á hjara veraldar mætir þeim skilningsleysi og áhugaleysi stjórnvalda. Það á enginn að þurfa að lifa við slíka reynslu heldur.

Í gærkvöldi sá ég líbönsku kvikmyndanna Capharnaüm eða Óreiða. Myndin sýnir á átakanlegan hátt frá sjónarhóli 12 ára stráks hvernig hlutskipti fátækra, atvinnulausra, flóttamanna, aldraðra og annarra sem mæta gjarnan afgangi í samfélaginu er nátengt. Samt eru sumir meðal okkar sem vilja láta þessa hópa stríða hver við annan í stað þess að sameinast gegn því óréttlæti sem þeir eru allir beittir.

Ragnar Þór Pétursson sagði á málþingi Kennarasambands Íslands í gær, með leyfi forseta:

„Við þurfum að taka stóru málin til umræðu á stóra sviðinu og horfast í augu við það að þau sitja öll pikkföst vegna þess að í samfélag okkar vantar grunnforsenduna, traust.“

Mikil reiði er í samfélaginu gagnvart stjórnmálunum. Daglega berast þingmönnum póstar þar sem við erum ásökuð um allt frá landráði og stjórnarskrárbrotum að vísvitandi árásum gegn almenningi. Jafnvel hafa sumir þingmenn talað svona um aðra, til að mynda í útvarpsviðtali í morgun.

Þessi reiði er gagnslaus og hún er skaðleg. Hún grefur undan getu samfélagsins til að byggja upp traustið sem við nauðsynlega þurfum til þess að geta tekist á við þessi stóru mál. Það er algerlega nauðsynlegt að þingmenn forðist að höfða til hagsmuna sumra hópa á kostnað annarra en leitist frekar við að stefna samfélaginu í átt að (Forseti hringir.) hagsmunum heildarinnar.