149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er einhver að tala um að banna sæstreng? Ég get ekkert útilokað að einhvern tímann verði lagður sæstrengur. Það er ákvörðun sem þarf að taka í þessum sal og menn taka þá ákvörðun ekki nema menn telji hagsmunum sínum best borgið með því að tengjast innri markaðnum með orku. En ég er ekkert viss um að það séu hagsmunir okkar að tengjast innri markaði Evrópu með orku, alla vega ekki eins og staðan er núna.

Ég veit auðvitað ekki hvernig framtíðin verður. Þó við myndum banna sæstreng núna þá getur Alþingi eftir nokkur ár ákveðið að fella það bann úr gildi og tengjast, það hefur enga þýðingu. Ég vil ekki banna neitt. Ég vil horfa á hagsmuni okkar á hverjum tíma.

Ég lít svo á að hagsmunir okkar núna felist í því að vera aðilar að þessum samningi. Ég er algjörlega sannfærður um það. Og ég ætla að vera inni í þessum samningi, vera áfram aðili að þessum samningi, a.m.k. meðan annað betra er ekki í boði. Og ég hef ekkert annað betra í boði. Ég vil uppfylla skyldur okkar eins og hægt er, en ég mun aldrei samþykkja neitt sem fer gegn miklum hagsmunum okkar. Ef ég tel að það fari gegn hagsmunum okkar núna að leggja sæstreng, þá mun ég ekki samþykkja. Það er ekkert flóknara en það.