149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:02]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var kannski ekki alveg skýrt að öllu leyti. Ég myndi kannski leita í ýmsar aðrar áttir en til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varðandi álit á lögfræðilegum málefnum.

Ég hef sérstakan áhuga á því að lögfræðilegt álit liggi fyrir um hinn lagalega fyrirvara sem hér er ráðgerður, að því verði svarað í álitsgerð eða álitsgerðum hvert hald væri í slíkum fyrirvara gagnvart þeirri ábyrgð og skyldum sem við erum að axla með því að samþykkja þennan pakka. Það er auðvitað það sem vantar algjörlega í þetta mál.

Hv. þingmaður nefndi, ef ég heyrði rétt, að það væri eins og að fara í óvissuferð að fara með þetta inn í sameiginlegu nefndina í sáttaferli. Ég spyr hv. þingmann: Í hvaða óvissuferð er verið að fara með þetta mál eins og það liggur fyrir?