Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

meðferð sakamála og fullnusta refsinga.

518. mál
[16:49]
Horfa

Kári Gautason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga. Ég tek undir með hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar að í grunninn er hérna um mjög gott mál að ræða, umbótamál sem snýr, eins og farið var vel yfir í ræðu hérna áðan, að tvenns konar breytingum; í fyrsta lagi bættri réttarstöðu brotaþola við meðferð sakamála hjá lögreglu og fyrir dómstólum; í öðru lagi breytingar til að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks; og í þriðja lagi bæta réttarstöðu aðstandenda látins einstaklings. Ég ætla að fjalla aðallega um þennan 1. lið og ræða þau sjónarmið sem komu fram í umfjöllun nefndarinnar um sameiginlega umsögn frá Aflinu – samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Femínistafélagi Háskóla Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvennaráðgjöfinni, Kvenréttindafélagi Íslands, Öfgum, Rótinni – félagi um velferð og lífsgæði kenna, Samtökum um kvennaathvarf, Stígamótum, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. – samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi,

Þau bentu á það að þó að þetta séu mikilvæg skref sé ekki verið að veita brotaþola fulla aðildarstöðu að málum. Og af hverju skiptir þetta sjónarmið miklu máli? Þau bentu á að þolendur kynferðisofbeldis og kynbundins ofbeldis upplifi það gjarnan að vera sett til hliðar í réttarkerfinu og að málsmeðferðin komi þeim hreinlega ekki við, eða það er upplifun þeirra af kerfinu. Um þetta er nokkuð fjallað í greinargerð frumvarpsins og þetta er dálítið heimspekileg og hugmyndafræðileg spurning. Í íslenskum rétti hefur það verið þannig að það er ríkisvaldið sem hefur það hlutverk að koma fram ábyrgt gagnvart þeim sem fremja afbrot og þannig má í rauninni segja að það sé verið að brjóta gegn ríkinu eða almannahagsmunum með brotum sem þó eru á milli einstaklinga. Þannig skynjar maður mjög sterkt í umræðunni að þetta er raunverulegt vandamál, að réttarkerfið nær ekki að bæta rétt brotaþola með nægilegum hætti. Nefndin fjallaði talsvert um þetta og þessi sjónarmið voru mikið rædd og það skiptir verulegu máli að þau séu rædd í þessum sal. Ég get persónulega tekið undir það hugmyndafræðilega sjónarmið að það skipti máli að það sé ekki bara ríkið að sækja einhvern til ábyrgðar gagnvart broti gegn öðrum einstaklingi heldur sé sá sem varð fyrir brotinu með í þessu ferli. Það sem mér finnst miklu máli skipta og kom fram í umfjöllun málsins og í greinargerðinni er að það eru tilteknir gallar við það að gera brotaþola að aðila og það sem hreyfir talsvert við mér er að við það myndi hann gefa skýrslu í sakamáli sem aðili en ekki sem vitni. Væri sú leið farin yrði trúverðugleiki framburðar brotaþola metinn minni af því að hann er aðili en ekki vitni. Þannig væri það í rauninni gegn hagsmunum brotaþolans þar sem framburður hans er oft og tíðum mikilvægasta sönnunargagnið í málinu.

Ég vildi bara draga þetta fram aðeins betur af því að ég hygg að þetta sé mikilvægt atriði. Meiri hlutinn telur að það sé mjög gott fyrsta skref í þessa átt þó að veita brotaþola aðild með þeim hætti sem er gert í frumvarpinu og hún er tímabær. Hún er löngu tímabær í ljósi umræðu í samfélaginu um mál af þessum toga á síðustu árum og ef við lítum til Norðurlandanna þá hafa átt sér stað umbætur þar líka. Ég held að það færi vel á því að það yrði bara meiri umræða um þennan hugmyndafræðilega þátt í réttarkerfinu því að þetta snýst svolítið um að það voru að meginstofni karlar sem bjuggu til réttarkerfið í fyrndinni. Það er eins og það er uppbyggt ágætt og leysir ágætlega úr mörgum brotaflokkum en hins vegar eru þessir brotaflokkar, kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi, ég held að það sé ekki ofmælt að segja að við getum gert mun betur þar. Við fengum að sjá býsna hrollvekjandi tölfræði í umfjöllun nefndarinnar um hversu lítill hluti brota er kærður og hversu stór hluti þeirra fellur niður og þess háttar. Til viðbótar við þessa upplifun sem er lýst er bara ferlið sem slíkt ekki til þess að fólk upplifi réttlæti í gegnum það. Þetta held ég að sé mikilvægt skref í þá átt að bæta þá upplifun því að það er sjálfstætt vandamál ef ferlið er þannig.

Ég vona að það verði meira af frumvörpum af þessum toga frá dómsmálaráðherra því að þetta er ákaflega gott mál og umbótamál.