Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:06]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði í dag um vantraust á dómsmálaráðherra. Eftir því sem má lesa í orð framsögumanns, hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, snýst hún um að ráðherra hafi bannað Útlendingastofnun að afhenda þinginu nauðsynleg gögn sem það kallaði eftir. Hér hefur í umræðunni og einnig fyrr verið farið yfir það að lögfræðilega er það vafa undirorpið hvaða gögn Útlendingastofnun ber að afhenda þinginu og hvenær. Þessi tillaga hvílir því á veikum grunni. Svo er það hitt að í langri umræðu um útlendingamál á þinginu undanfarið og í málþófi stjórnarandstöðunnar hafa þung orð fallið á báða bóga og sýnist mér að ástæðan fyrir þessari vantrauststillögu nú sé fyrst og fremst að hæstv. dómsmálaráðherra hafi í umræðum fyrr í vikunni vegið að heilindum þeirra sem harðast hafa barist gegn hinu svokallaða útlendingafrumvarpi.

Hæstv. dómsmálaráðherra og sá sem hér stendur hafa oft tekist hart á og því fer fjarri að ég sé alltaf sammála hæstv. ráðherra, einstaka ákvörðunum hans eða því hvernig hann á það til að kynna mál sitt og setja fram. Hins vegar er í mínum huga þessi vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar hluti af þessari eitruðu orðræðuhefð sem hefur skapast í kringum málefni útlendinga á Alþingi Íslendinga. Í þeirri umræðu þykir mér þeir sem harðast hafa talað, t.d. gegn útlendingafrumvarpinu, hafa gert mikið til að magna upp átök um málefnið þegar það er fyrst og fremst skylda þingmanna að tala af yfirvegun, skynsemi og mannúð um þennan viðkvæma málaflokk. Hér er stjórnarandstaðan einu sinni enn að freista þess að búa til átök um útlendingamál á Íslandi, að þessu sinni með því að krefjast þess að hæstv. dómsmálaráðherra fari frá og kljúfa þannig ríkisstjórnina sem stendur frammi fyrir, ásamt Alþingi öllu og okkur öllum, gríðarlega mikilvægu verkefni; því að verja lífskjör þjóðarinnar við erfiðar efnahagslegar aðstæður.

Sjaldan veldur einn er tveir deila, segir máltækið. Látum þessa umræðu marka endalok ofsafenginnar umræðu um viðkvæmt málefni og upphafið að umræðum sem einkennast af skynsemi, yfirvegun og mannúð.